Fara í efni

Magnað afreksfólk - núverandi og fyrrverandi nemendur VMA

Ísfold, Jakobína og Kimberley. Af heimasíðu Þórs.
Ísfold, Jakobína og Kimberley. Af heimasíðu Þórs.

Fyrrverandi og núverandi nemendur í VMA halda áfram að gera það gott í íþróttum. Nú er það fótboltinn.

Nökkvi Þeyr Þórsson, sem brautskráðist sem stúdent frá VMA í desember sl., hefur slegið í gegn með KA-liðinu í sumar og er sem stendur markahæsti leikmaður deildarinnar. Þessi frábæri árangur hefur skilað honum í atvinnumennsku því í vikunni skrifaði hann undir samning við belgíska félagið Beerschot, sem spilar í næstefstu deild í Belgíu. Og í fyrradag voru Jakobína Hjörvarsdóttir og Ísfold Marý Sigurgeirsdóttir, sem báðar stunda nám á íþróttabraut VMA, í eldlínunni í U-19 ára landsliði Íslands í knattspyrnu sem vann Svía 2-1 í vinnuáttulandsleik.

Þeir tvíburabræður Nökkvi Þeyr og Þorri Mar Þórssynir fylgdust að í námi og luku báðir stúdentsprófi frá VMA í desember sl. Báðir hafa þeir undanfarin tímabil spilað með KA og verið lykilmenn í liðinu sem eins og er vermir annað sæti í Bestu deild karla. Í ljósi frammistöðu Nökkva Þeys í sumar hefur aldrei verið spurning um að næsta skref hans yrði atvinnumennska, bara spurningin hvenær. Þegar tilboðið kom núna, áður en fótboltaglugginn í Evrópu lokar í nokkra mánuði, var Nökkvi seldur til Beerschot.

Þrjár Þór-KA stelpur, Jakobína Hjörvarsdóttir, Ísfold Marý Sigurgeirsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, hafa síðustu daga verið í keppnisferð í Skandinavíu með U-19 landsliði Íslands og spilað tvo æfingaleiki við Norðmenn og Svía. Jakobína og Ísfold Marý stunda nám á íþróttabraut VMA og spila auðvitað í liði Þórs-KA. Fyrri leikurinn við Norðmenn tapaðist en íslensku stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu Svía 2-1. Í þeim leik var Jakobína í byrjunarliðinu og var jafnframt fyrirliði liðsins. Ísfold Marý kom inn á í seinni hálfleik.

Full ástæða er til að óska þessu unga afreksfólki innilega til hamingju með þennan magnaða árangur!