Mætti ellefu ára gamall í þýskupróf í VMA!
Ætla má að Atli Freyr Einarsson, kerfisstjóri VMA eða tæknifulltrúi eins og hann er titlaður í starfsmannaskrá VMA, hafi verið yngsti nemandi í sögu VMA – aðeins tíu ára gamall!
Forsaga málsins er sú að Atli Freyr fæddist í Þýskalandi árið 1992, foreldrar hans bjuggu þá í Göttingen í Neðra-Saxlandi er faðir hans, Einar Brynjólfsson, kennari í VMA frá 1999 til 2010 og nú kennari í MA, var þar í meistaranámi í sagnfræði. Móðir Atla Freys er Helga Hákonardóttir hjúkrunarfræðingur. Atli var í leikskóla þar ytra og lærði því þýsku til jafns við íslensku.
„Árið 1998, þegar ég var sex ára gamall, fluttum við heim til Íslands og vorum fyrsta árið á Sauðárkróki þar sem við bjuggum í húsvarðaríbúð á heimavist Framhaldsskóla Norðurlands vestra. Pabbi kenndi sögu við skólann en mamma hafði umsjón með heimavistinni. Að ári liðnu fluttum við til Akureyrar og ég fór í Brekkuskóla og var þar alla mína grunnskólatíð. 
Til þess að viðhalda þýskukunnáttunni settu pabbi og mamma gervihnattadisk á húsið og þar með gátum við krakkarnir horft á þýskt barnaefni. Á vorönn 2003, þegar ég var enn tíu ára gamall, var ég skráður í þýsku 103, fyrsta framhaldsskólaáfangann í þýsku, í fjarnámi við VMA, ég held að undirlagi pabba, sem þá var kennari við VMA. Wolli Sahr var kennarinn minn. Önnin gekk ljómandi vel og ég rúllaði upp öllum verkefnum en síðan er kom að lokaprófinu í maí 2003 þurfti ég auðvitað að koma hingað í skólann. Þá var ég nýorðinn ellefu ára gamall. Mamma og pabbi sendu mig einan í skólann í prófið, líklega til þess að herða upp í stráknum. Ég labbaði úr Vanabyggðinni, þar sem við áttum heima, og var svolítið áttavilltur þegar ég kom inn í skólann, enda þekkti ég lítið til húsakynnanna. Eftirminnilegast er þegar ég kom inn í stofuna þar sem prófið var. Þar voru samnemendur mínir mættir sem og yfirsetukennari. Flestir ráku upp stór augu því auðvitað var afar fjarstæðukennt að pínulítill tíu-ellefu ára gutti - ég var alltaf minnstur í bekknum á þessum árum - væri mættur í þýskupróf í VMA! En eftir útskýringar um að ég hefði verið í þessum áfanga á önninni fékk ég að setjast við borð og þreyta prófið. Það gekk ljómandi vel, í það minnsta kom í ljós þegar ég lét nýverið fletta því upp í gömlum gögnum VMA að ég fékk 9 í lokaeinkunn í áfanganum.
Strax í kjölfarið, á haustönn 2003, hélt ég áfram í þýskunni hjá Wolla og tók einnig þýsku 203 í fjarnámi. Þá stóð ég mig skrefinu betur og fékk 10 í lokaeinkunn!
Á þessum tíma þurfti að taka fjóra áfanga fyrir þriðja tungumál, með öðrum orðum þurfti ég líka að taka þýsku 303 og 403. Það varð úr að fermingarárið mitt, árið 2006, lauk ég þýsku 303, einnig í fjarnámi í VMA. Tveimur árum síðar, árið 2008, hóf ég nám á náttúrufræðibraut í MA og á þriðja ári í MA tók ég fjórða og síðasta þýskuáfangann, eftir sem áður í fjarnámi við VMA. Í öllum þessum fjórum áföngum tók ég skrifleg lokapróf hér í skólanum,“ segir Atli Freyr.
Þó svo að Atli hefði brennandi áhuga á raungreinum, ekki síst stærðfræði, lauk hann ekki stúdentsprófi frá MA. Hann tók um það ákvörðun þegar hann var á síðustu metrunum í námi sínu til stúdentsprófs, á áttundu og síðustu önn í MA, að láta gott heita og snúa sér að bissness með tveimur félögum sínum.
„Þó að ég ætti stutt í land til að klára stúdentinn í MA ákvað ég að hætta á síðustu önninni og stofna með tveimur vinum mínum og jafnöldrum matsölufyrirtæki sem við kölluðum Gosinn. Ég hugsaði með mér að ég lyki svo bara síðar við það sem upp á vantaði til stúdentsprófs, í mínum huga skipti ekki öllu frá hvaða skóla ég útskrifaðist sem stúdent.
Við félagarnir rákum matsöluskúr við hliðina á Pylsuvagninum í Hafnarstræti og afgreiddum þar meðal annars íslenska kjötsúpu fyrir gesti og gangandi. Raunar varð þetta skammlífur bissness því hann lifði bara sumarið 2012. Um veturinn tók ég þá áfanga í fjarnámi við VMA sem upp á vantaði til stúdentsprófs og brautskráðist frá VMA sem stúdent vorið 2013.
Með stúdentsprófið upp á vasann fór ég í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og lauk því henni árið 2016 – og bætti við mig fyrri hluta meistaranáms 2016-2017. Fór í kjölfarið að starfa sem tölvunarfræðingur, alveg til 2024 þegar ég sneri mér að öðru. Þá fór ég að finna fyrir auknum áhuga á að gerast stærðfræðikennari á framhaldsskólastigi. Fyrsta skrefið var að gerast kerfisstjóri í MA haustið 2024 og í upphafi þessa skólaárs bætti ég við kerfisstjórn í VMA og skipti því vinnuvikunni á milli skólanna. Í þessu felst m.a. tölvuaðstoð af ýmsum toga við bæði nemendur og starfsmenn skólanna, að sjá um alla aðganga að Menntaskýinu, endurnýjun og kaup á tölvubúnaði, að passa upp á að kennslustofur séu tæknilega vel búnar, að netmálin séu í lagi og sömuleiðis öryggismyndavélar. Óhætt er að segja að starf kerfisstjóra er mjög fjölbreytt því engir tveir vinnudagar eru eins.
Stærðfræðiáhugi minn er ekki nýr af nálinni. Þegar ég var í MA á sínum tíma hafði ég mikla ánægju af stærðfræðinni og tók samnemendur mína í MA í einkatíma og raunar tek ég enn nemendur í einkatíma í stærðfræði. Ég fékk því snemma innsýn í stærðfræðikennslu og mig langar til þess að rækta þetta áhugamál með því að starfa við kennslu í framtíðinni. Til viðbótar við mín daglegu störf sem kerfisstjóra í MA og VMA tek ég kennsluréttindanám á litlum hraða við Háskólann á Akureyri og er þannig að búa mig smám saman undir að færa mig yfir í kennsluna,“ segir Atli Freyr og bætir við að hann búi alltaf að því að hafa lært þýsku ungur að árum. Hún sé á sínum stað á harða diskinum og tiltölulega skamman tíma taki að kalla hana fram þegar á þurfi að halda, hvort sem er hér á landi eða í Þýskalandi.