Fara í efni

Lýðræðisvika í VMA - framboðsfundur og skuggakosningar

Skuggakosningar verða í VMA nk. fimmtudag.
Skuggakosningar verða í VMA nk. fimmtudag.

Það styttist í alþingiskosningar, þær verða laugardaginn 25. september nk. Síðustu alþingiskosningar voru haustið 2017 og síðan hafa stórir árgangar fengið kosningarétt og hafa nú rétt til þess að ganga að kjörborðinu í alþingiskosningum í fyrsta skipti – en kosningarétt öðlast kjósendur þeir verða átján ára gamlir.

Í tilefni af alþingiskosningunum er þessi vika, 6. til 9. september, helguð lýðræði í framhaldsskólum landsins – þar á meðal í VMA - og því kölluð lýðræðisvikan. Að vikunni standa Landssamband ungmennafélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema.

Sem liður í lýðræðisvikunni verður nk. miðvikudag, 8. september, kl. 12:00, efnt til kosningafundar í Gryfjunni í aðdraganda alþingiskosninganna. Fulltrúum allra framboða í Norðausturkjördæmi hefur verið boðið til fundarins þar sem þeim gefst tækifæri til þess að ræða stuttlega um áherslur sínar í málefnum ungs fólks. Að framsögum loknum gefst nemendum tækifæri til þess að spyrja frambjóðendur um það sem brennur á þeim.

Þau framboð sem þegar hafa birt framboðslista sína í Norðausturkjördæmi eru:

D – Sjálfstæðisflokkur
B – Framsóknarflokkur
F – Flokkur fólksins
J – Sósíalistaflokkur Íslands
M – Miðflokkurinn
S – Samfylkingin
O – Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn
V – Vinstri hreyfingin – grænt framboð
C – Viðreisn
P – Píratar

Í framhaldi af þessum kynningar- og framboðsfundi í Gryfjunni verður efnt til svokallaðra skuggakosninga nk. fimmtudag, 9. september, í Gryfunni frá kl. 8:30 til 15:40. Þar geta allir nemendur skólans fæddir eftir 29. október 1999 tekið þátt og kosið, eins og væri um að ræða alvöru kjördag. Framkvæmd kosninganna verður í höndum nemendafélagsins Þórdunu og nemenda í lýðræðis- og mannréttindaáföngum sem Valgerður Dögg Jónsdóttir og Þorsteinn Kruger kenna. Lýðræðismálin verða einnig til umræðunni í vikunni í lífsleikni og fleiri áföngum.

Skuggakosningar verða almennt í framhaldsskólum landsins á fimmtudaginn. Úrslit þeirra verða kunngjörð þegar kjörstöðum hefur verið lokað að kvöldi kjördags, 25. september nk.

Fyrst og fremst er þetta gert til þess að efla lýðræðisvitund ungs fólks og hvetja það til þess að nýta kosningarétt sinn í alþingiskosningunum 25. september nk. Til þess að kjósa eru kjósendum tvær leiðir færar, annað hvort að mæta á kjörstað í sínu sveitarfélagi eða kjósa utan kjörfundar og koma atkvæðinu til skila til kjörstjórnar í viðkomandi kjördæmi.