Fara í efni

Löng helgi - haustfrí í VMA 24. og 27. október

Helgi magri og Þórunn hyrna á Hamarkotsklöppum.
Helgi magri og Þórunn hyrna á Hamarkotsklöppum.

Í dag, föstudaginn 24. október, og nk. mánudag, 27. október, er haustfrí í VMA. Við kennum þessa frídaga við annars vegar Helga magra, landnámsmann Eyjafjarðar, og hins vegar Ketil flatnef Bjarnason, sem var faðir Þórunnar hyrnu, konu Helga magra og þar með tengdafaðir Helga.

Í þessu sambandi er rétt að rifja Íslandssöguna aðeins upp:

Helgi magri Eyvindarson var fæddur á Írlandi. Foreldrar hans komu honum sem ungum dreng í fóstur á Suðureyjum en sagan segir að tveimur vetrum síðar, þegar foreldrar hans komu og sóttu Helga úr vistinni, hafi hann verið illa á sig kominn vegna sveltis. Upp úr því fékk Helgi viðurnefnið „magri“. Hann kvæntist Þórunni hyrnu, dóttur Ketils flatnefs, og áttu þau synina Hrólf, Ingjald og dæturnar Helgu, Hlíf, Þórhildi, Þóru, Ingunni og Þorbjörgu hólmasól, sem sagan segir að Þórunn hyrna hafi alið á Þórunnareyju í Eyjafjarðará.

Helgi hafði tekið kristni en var blendinn í trúnni og hét á Þór til sjóferða. Hann ákvað að fara til Íslands með konu sína og börn og nema þar land. Þegar hann sá til lands hét hann á Þór að vísa sér til lands og sigldi síðan norður fyrir land og inn í Eyjafjörð og tók land við utanverðan Eyjafjörð, vestanverðan, og var þar fyrsta veturinn. Vorið eftir sigldi hann innar í fjörðinn og nam svo allan Eyjafjörð. Hann byggði sér bæ sem hann kallaði Kristnes og segir mikið um trú hans.

Ketill flatnefur, faðir Þórunnar hyrnu og tengdafaðir Helga magra, var hersir í Noregi á níundu öld. Kona hans var Yngveldur Ketilsdóttir og áttu þau synina Björn austræna og Helga bjólu og dæturnar Auði djúpúðgu, landnámskonu vestur í Dölum, Þórunni hyrnu og Jórunni manvitsbrekku. 

Helgi magri og Þórunn hyrna voru endursköpuð í tignarlegri höggmynd sem Jónas Jakobsson gerði árið 1957 og nefndi „Landnemarnir“. Verkið, sem er á Hamarkotsklöppum á Akureyri, sýnir Helga magra og Þórunni hyrnu standa á stalli sínum og horfa inn Eyjafjörðinn og Helgi virðist vera að benda konu sinni á framtíðarland þeirra. Jónas vann að gerð verksins í Sundlaug Akureyrar, sem þá var í byggingu. Hann hafði aðrar hugmyndir um uppsetningu verksins því í upphafi teiknaði hann það á hárri súlu.
Verkið var fyrst steypt en í þeirri mynd varð það fljótlega eyðileggingu að bráð. Styttan var síðan endurgerð í brons. Við flutning þess vildi ekki betur til en svo að spjótið brotnaði. Þetta óhapp uppgötvaðist þó ekki fyrr en eftir að búið var að steypa verkið í brons. Þessi mistök voru þó um síðir leiðrétt og Helgi skartar sínu vígalega spjóti.

Kennsla hefst aftur að loknu haustfríi nk. þriðjudag, 28. október.