Fara í efni

Lokaverkefnið tekið upp í Grímsey

Við myndbandsupptöku í Grímsey.
Við myndbandsupptöku í Grímsey.

Valgerður Þorsteinsdóttir lýkur námi af listnáms- og hönnunarbraut í vor og stefnir á nám í leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands. Hún segir að leiklistarbakterían hafi tekið sig föstum tökum og hana sé ekki svo auðvelt að losna við.

Valgerður hóf nám í VMA árið 2013 og fór til að byrja með á íþróttabraut og félagsfræðabraut. En eftir að hún tók sjónlistaáfanga ákvað hún að taka nýja stefnu og innritaðist á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar, þaðan sem hún útskrifast með stúdentspróf í vor.

Rætur hennar liggja að hluta í Grímsey og þangað fór hún fyrr í þessum mánuði og tók upp myndband við lag sem hún hefur samið – en þessi listsköpun verður uppistaðan í lokaverkefni hennar á listnámsbrautinni í vor. Valgerður tók sjálf upp myndbandið í magnaðri náttúru Grímseyjar og frænka hennar í Grímsey, Helga Hrund Þórsdóttir, lagði henni lið. Hér má sjá þær frænkur við vinnslu myndbandsins í Grímsey.

Á þeim árum sem Valgerður hefur verið í VMA hefur hún lagt sín lóð á vogarskálarnar í bæði leiklistinni og söngnum. Hér er hún að syngja Söknuð við brautskráningu VMA í desember 2015 og hér er hún á sviðinu í Freyvangi í Bjart með köflum sem Leikfélag VMA setti upp sl. vetur. Og ekki má gleyma þátttöku hennar í Voice Ísland fyrir áramót. Hér má sjá Valgerði í fyrstu umferð þeirrar keppni, þar sem Svala Björgvinsdóttir féll fyrir henni. 

Valgerður er að læra söng hjá Þórhildi Örvarsdóttur í Tónlistarskólanum á Akureyri og einnig hefur hún samið lög og hljóðritað. Hér er dæmi um eitt lag eftir Valgerði og hér er annað. 

Í námsáfanga á haustönn hjá Björgu Eiríksdóttur málaði Valgerður þetta akrílverk. Eins og sjá má er myndin af svartfuglseggi og því fer vel á því að verkið prýðir stofuvegg í Grímsey. Valgerður segir að það sem heilli við svartfuglseggin sé ekki síst lögun þeirra og litirnir.