Fara í efni

Lofa fjörugri og skemmtilegri sýningu

Frá æfingu á Bugsý Malón í síðustu viku í Hofi.
Frá æfingu á Bugsý Malón í síðustu viku í Hofi.

„Þetta er sannarlega stór og viðamikil sýning. Þegar mest er eru hátt í þrjátíu manns á sviðinu í Hofi. Ég lofa myndrænni, fjörugri og skemmtilegri sýningu sem hefur þann boðskap að glæpir borga sig ekki,“ segir Gunnar Björn Guðmundsson, leikstjóri uppfærslu Leikfélags VMA á söngleiknum Bugsý Malón sem verður frumsýndur í Hofi nk. föstudagskvöld, 8. febrúar.

Verkið hefur verið í æfingu síðan í október og það hefur sannarlega verið í mörg horn að líta að sauma þetta allt saman. Gunnar Björn segir að þegar um er að ræða svo fjölmenna sýningu með dönsum og söngvum þurfi skipulagið á æfingaferlinu að vera gott. „Þegar nokkrir dagar eru í frumsýningu er ég mjög sáttur við stöðu mála. Þetta er algjörlega á áætlun, hópurinn er agaður og einbeittur á verkefnið. Í sýningunni koma fram fjölmargir afar hæfileikaríkir krakkar. Sumir þeirra hafa verið með í fyrri uppfærslum Leikfélags VMA en meirihluti þeirra sem eru á sviðinu eru í sinni fyrstu uppfærslu hjá félaginu. Einn leikaranna í sýningunni hefur verið að leika að undanförnu í Línu langsokk hjá Freyvangsleikhúsinu sem ég leikstýrði einnig.“

Gunnar Björn er vissulega enginn nýgræðingur á þessu sviði,hann hefur starfað meira og minna við leikstjórn í meira en tuttugu ár. Gunnari Birni telst til að Bugsý Malón sé þrítugasta og fyrsta leiksýningin sem hann leikstýrir. Hann hefur leikstýrt út um allt land en þetta er einungis önnur nemendasýningin sem hann færir upp. Eftir frumsýningu á Bugsý liggur leið Gunnars Björns til Akraness þar sem hann leikstýrir uppfærslu nemenda Framhaldsskóla Vesturlands. En ekki aðeins hefur hann stýrt leiksýningum, hann er margreyndur leikstjóri í sjónvarpi, t.d. hefur hann stýrt fjórum áramótaskaupum Ríkissjónvarpsins.

„Þessa síðustu daga fram að frumsýningu verðum við með daglegt rennsli á verkinu. Við æfum frá fjögur til hálf tólf á hverjum degi og því er álagið þessu síðustu daga mikið. Mér sýnist að um fjörutíu manns taki þátt í hverri sýningu en mun fleiri hafa komið að öllu því sem þarf að gera á bakvið tjöldin,“ segir Gunnar Björn og nefndi til dæmis að nemendur á málmiðnaðarbraut hafi lagt hönd á plóg við að búa til þriggja metra háa þríhyrninga sem mynda leikmyndina. Hér er verið að klæða þríhyrningana með taui í ýmsum litum, allt verður þetta komið á sinn stað og tilbúið á sviðinu í Hofi nk. föstudagskvöld þegar flautað verður til leiks á frumsýningu Bugsý Malón.

Fjórar sýningar eru áætlaðar á Bugsý Malón. Hér eru frekari upplýsingar um sýninguna og hægt að kaupa miða á allar sýningarnar. Nú er heldur betur ástæða til þess að drífa sig í Hof og njóta.