Fara í efni

Ljósbrot og skuggar

Í töfraheimi ljósbrota og skugga sem myndvarpinn skapar.
Í töfraheimi ljósbrota og skugga sem myndvarpinn skapar.

Víddir myndlistarinnar eru órannsakanlegar. Myndlistin er allskonar og opnar hlið inn í forvitnilega heima. Hugmyndafluginu eru engin takmörk sett. Hefðbundin málverk sem máluð er með vatnslitum, akríl, olíulitum eða einhverju öðru, teikningar, skúlptúrar, myndbandsverk, gjörningar og innsetningar – og svo mætti endalaust telja.

Oft verða bestu hugmyndirnar til þegar síst skyldi og það er gömul saga og ný að það einfalda er oftast best þegar upp er staðið. Það er gaman að nýta sér tæknina við sköpun myndlistar og tölvutæknin er auðvitað óendanlegur akur uppsprettu hugmynda. En það er líka hægt að notast við aðra tækni eins og gamla góða myndvarpann, sem var til í hverri skólastofu hér á árum áður en er nú frekar fáséður. Skjávarparnir hafa leyst myndvarpana af hólmi.

Arna G. Valsdóttir, kennari við listnáms- og hönnunarbraut, hefur í gegnum árin kennt marga og ólíka áfanga með nemendum á sérnámsbraut skólans, ein eða með öðrum kennurum, og árangurinn hefur ávallt verið eftirtektarverður. Á þessari önn kennir Arna nemendum á sérnámsbrautinni og nýtir sér tækni af ýmsum toga til þess að ýta undir áhuga þeirra og athygli. Hér eru Arna og Hulda Júlía Ólafsdóttir iðjuþjálfi að vinna með tveimur nemendum á sérnámsbraut og nýta bæði myndvarparpa og skjávarpa til að skapa hreyfingu sem umlykur nemendurna. Þannig verða þeir, ef svo má segja, hluti af verkinu og upplifuninni. Til þess að ýta frekar undir upplifunina var spiluð seiðandi tónlist. Afar áhugavert var að sjá hversu sterklega þetta einfalda en áhrifamikla myndmál ljósbrota og skugga höfðaði til nemendanna.