Fara í efni

Listsköpunin veitir slökun

Anna Kristín Arnardóttir.
Anna Kristín Arnardóttir.

Anna Kristín Arnardóttir á Akureyri stefnir að því að ljúka stúdentsprófi af listnámsbraut VMA um næstu jól. Hún segir ekki tilviljun að hún valdi listnámsbrautina því hún hafi frá því hún var lítil haft mikla ánægju af því að teikna. „Mamma vildi reyndar að ég stefndi á hjúkrun en ég valdi listnámsbrautina og sé ekki eftir því,“ segir Anna Kristín. Hún segir að listsköpunin veiti sér slökun, eins og hún orðar það, hún virki sem meðferð við kvíða sem hún segist hafa glímt við í nokkur ár. Anna Kristín er síður en svo feimin að tala um kvíðann, hún sé ein af mörgum sem hún þekki sem eigi við þetta að stríða og hann sé henni alls ekki hindrun í daglegu lífi.

Námið segir hún að uppfylli sínar væntingar. Hún hafi lært alveg helling, eins og hún orðar það, og kennslan sé mjög góð. „Og mér líkar mjög vel hérna í skólanum,“ segir hún. Hún segir of snemmt að segja til um hvað taki við hjá sér að loknu náminu í VMA, en líkur séu til þess að hún stoppi eilítið í skólagöngunni áður en hún taki næstu skref. Vel geti verið að hún fari í frekara listnám en einnig segist hún hafa áhuga á að fara í lýðháskóla á Norðurlöndum, líklega frekast í Danmörku.

Á meðfylgjandi mynd stendur Anna Kristín við akrílverk sem hún vann á haustönn. Hér má sjá þetta verk sem er landslagsmynd frá Noregi, þangað sem hún fór með vinkonu sinni fyrir þremur árum og skoðaði sig um. Hún tók fullt af ljósmyndum í þeirri ferð og notaði þær til þess að skapa sína eigin mynd af Noregi.