Fara í efni

Lísa í Undralandi frumsýnd laugardaginn 5. mars - miðasala í fullum gangi

Lísa í Undralandi verður frumsýnd nk. laugardag.
Lísa í Undralandi verður frumsýnd nk. laugardag.

Næstkomandi laugardag, 5. mars kl. 15:00, frumsýnir Leikfélag VMA, Lísu í Undralandi í Gryfjunni í VMA.  Leikverkið byggir á bók eftir Lewis Carrol, sem var fyrst gefin út árið 1865 og hefur verið þýdd á vel á annað hundrað tungumálum. Leikgerð sýningarinnar er eftir Margréti Örnólfsdóttur en tónlistin er eftir Dr. Gunna. Leikstjóri sýningarinnar er Sindri Swan.

Þrettán leikarar eru í sýningunni og fara þeir með átján hlutverk. Leikararnir eru: Eyrún Arna, Kormákur, Rökkvi Týr, Sigríður Erla, Agnar Sigurðar, Rannveig Lilja, Svavar Máni, Emma Ósk, Sebastian Fjeldal, Anna Birta, Úrsúla Nótt, Júní Sigurðar og Sandra Hafsteins.

Aðstoðarleikstjóri, sýningarstjóri og raddþjálfi er Embla Björk, Eva Reykjalín hefur samið og þjálfað dansa í sýningunni, Elín Gunnarsdóttir annast útlitshönnun, Anna Birta, sem einnig leikur í sýningunni, stýrir hárgreiðslu í sýningunni, Tumi Snær hefur haft með höndum sviðshönnun, Sigurður Bogi ljósahönnun og Halldór Birgir hljóðhönnun og raddþjálfun.

Í búningahönnuninni eru Emma Þöll, Hólmfríður Ósk, Þórunn Eva, Birna Karen, Guðrún Karen, Katla Snædís og Sveinbjörg Anna. Auk Önnu Birtu vinna að hárgreiðslunni Minna Kristín, Telma Marý, Alma Jahida, Inga Sóley og Kormákur.

Um leikmuni sjá Sebastian Fjeldal, Inga Lilja, Sigrún Brynja, Emma Ósk og Sigurjón Líndal. Förðun er í höndum Hönnu Láru, Aþenu Mareyjar og Margrétar Jónu. Helga Laufey og Ólöf Alda eru sviðsmenn, tæknimenn eru Ásta Sóley og Hákon Logi. Örn Smári hefur verið í ýmsum verkum og Anna Kristjana hannar leikskrá.

Í leikskrá sýningarinnar segir Sindri Swan leikstjóri m.a.: „Ferli leikfélagsins þetta árið hefur verið piprað af fjarverum bæði vegna Covid 19 og annarra veikinda. Hægt er að telja fjölda æfinga þar sem allir hafa verið viðstaddir á fingrum annarrar handar og er það til vitnis um þrautseigju þessara ungu einstaklinga sem margir hverjir hafa ekki upplifað hefðbundna skólagöngu síðastliðin ár. Það má taka ómældan innblástur í þolinmæði, úrræðasemi og sköpunargleði nemenda Verkmenntaskólans, sem hafa ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur í kringumstæðum sem margir myndu gera minna!“

Lísa í Undralandi er sannarlega sýning fyrir alla fjölskylduna. Leikritið byggir á þekktu ævintýri þar sem Lísa eltir hvíta kanínu með vasaúr í gegnum undarlega kanínuholu og lendir þar í sannkallaðri undraveröld með ýmsum furðuverum. Við sögu koma margar skemmtilegar persónur, s.s. Hattarinn, Hjartadrottningin, Hvíta kanínan og Glottkötturinn.

Sindri Swan, leikstjóri sýningarinnar, hefur bæði leikið og leikstýrt. Sindri útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá KADA í London árið 2014. Þar bjó hann í ellefu ár og lék bæði í kvikmyndum og á leiksviði. Undanfarin ár hefur hann í auknum mæli lagt áherslu á leikstjórn.

Hér eru myndir sem voru teknar fyrir æfingu og á rennsli á Lísu í Gryfjunni í síðustu viku.

Miðasala á Lísu í Undralandi er í fullum gangi. Fjórar sýningar hafa þegar verið ákveðnar; frumsýning laugardaginn 5. mars kl. 15, önnur sýning sunnudaginn 6. mars kl, 15, þriðja sýning föstudaginn 11. mars kl 18 og fjórða sýning laugardaginn 12. mars kl. 15.

Hér er hægt að panta miða, en greiðsla þeirra fer fram við innganginn. Sem fyrr segir verður Lísa sýnd í Gryfjunni í VMA, gengið um austurinngang skólans (við Þórslíkneskið).