Fara í efni

Lilla Steinke sigraði Söngkeppni VMA 2015

Lilla Steinke með móður sinni, Anke Mariu Steinke.
Lilla Steinke með móður sinni, Anke Mariu Steinke.

Lilla Steinke sigraði Söngkeppni VMA 2015 sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi í gærkvöld. Flutningur Lillu á lagi Gretu Karenar, Nothing, tryggði sigurinn og um leið þátttöku hennar fyrir hönd VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna í vor. Í öðru sæti urðu Hannes Ívar Eyþórsson og Sunna Líf Óskarsdóttir með lagið Making Plans og í þriðja sæti varð Fríða Kristín Hreiðarsdóttir með lagið Hero of War. Jón Stefán Kristinsson, sem söng lagið I'll make a Man out of You úr myndinni Mulan, fékk viðurkenningu fyrir bestu sviðsframkomuna. Söngatriði kvöldsins voru átján talsins.

Umgjörð Söngkeppni VMA í Menningarhúsinu Hofi í gærkvöld var öll hin glæsilegasta og öllum aðstandendum keppninnar til mikils sóma en þetta var í fyrsta skipti sem keppnin er haldin þar. Hljómsveitin, undir stjórn Tómasar Sævarssonar, var kraftmikil og góð og Eyþór Ingi Gunnlaugsson, sem á sínum tíma sigraði þessa sömu keppni og sigraði sama ár Söngkeppni framhaldsskólanna, var kynnir kvöldsins. Að sjálfsögðu söng hann einnig fyrir gesti og gerði það eins og honum einum er lagið. Dómnefnd kvöldsins skipaði tónlistarfólkið Lára Sóley Jóhannsdóttir, Magni Ásgeirsson og Rúnar Eff.

Hér má sjá nokkrar myndir frá keppninni.

Lilla Steinke, sem stundar nám í félagsfræðadeild VMA, var að keppa í þriðja skipti í Söngkeppni VMA. Hún var að vonum hæstánægð með sigurinn.  „Í fyrri tvö skiptin var ég alveg skelfilega stressuð og gekk því ekki vel en núna drakk ég „overdosis“ af kaffi og fyrir vikið hafði ég ekki tíma til þess að vera stressuð. En það tekur alltaf á að fara á svið og syngja, ég held að það sé ekki til sá tónlistarmaður sem er pollrólegur á sviðinu,“ sagði Lilla. Hún sagðist hafa valið Nothing vegna þess að hún hafi vitað að það lag myndi henta sér mjög vel. „Það er í sjálfu sér engin djúp pæling á bak við valið á þessu lagi. Mér fannst það bara passa mér vel,“ sagði Lilla og hlakkar til þess að flytja lagið fyrir hönd VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna.

Á meðfylgjandi mynd, sem var tekin skömmu eftir að úrslitin lágu fyrir í gærkvöld, eru þær mæðgur Lilla Steinke og Anke Maria Steinke, þýsku- og enskukennari við VMA.

Það er skammt stórra högga á milli í félagslífinu í VMA. Næst er það sjálf árshátíð nemenda VMA föstudagskvöldið 6. mars nk. og var upplýst í gærkvöld að þeir fóstbræður Gunni og Felix verði þar veislustjórar og hljómsveitin Gus Gus með Daníel Ágúst Haraldsson í broddi fylkingar verði aðalhljómsveit kvöldsins.