Fara í efni

Lífið í vatni á þemadögum um heimsmarkmið SÞ

Hluti af vatnaveröldinni á sviðinu í Gryfjunni.
Hluti af vatnaveröldinni á sviðinu í Gryfjunni.

Eins og fram hefur komið er þessi vika þemavika í VMA þar sem sjónum er beint að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á einn eða annan hátt. Nemendur á listnáms- og hönnunarbraut fengu því verkefni úthlutað að vinna myndverk af ýmsum toga – bæði málverk og skúlptúra – undir yfirskrift eins af heimsmarkiðunum – Líf í vatni. Verkin mynduðu síðan eitt heildarverk sem unnið hefur verið að því að koma upp í Gryfjunni. Með skjávörpum og ljósum hefur smám saman orðið þar til skemmtileg vatnaveröld með fiskum, vatnagróðri og ýmsu öðru er tengist hafinu.

Líf í vatni beinir sjónum okkar að mikilvægi þess að sjórinn sé hreinn – sem því miður ekki er raunin. Eins og fram hefur komið er gríðarlega mikil plastmengun í hafinu, sjórinn hefur súrnað og loftlagsbreytingar hafa gert það að verkum að á ýmsum hafssvæðum hefur hitastig sjávar hækkað sem aftur hefur leitt til breytinga á lífríki sjávar. Fisktegundir hafa fært sig til. Gleggsta dæmið um það er loðnan, sem er einn af okkar mikilvægustu nytjafiskum. Tvö ár í röð er engin loðnuvertíð, sem kemur til af því að ekki hefur nægilega mikil loðna mælst á Íslandsmiðum til þess að vísindamenn hafi getað mælt með veiðum. Hvort þetta breytta hegðunarmynstur loðnunnar stafar af loftlagsbreytingum skalt ósagt látið, vísindamenn geta ekki fullyrt það, en svo mikið er víst að sjávarútvegsþjóðin Íslendingar eiga mikið undir hafinu og að jafnvægi sé í lífríki sjávar.

Listsýning nemenda á listnáms- og hönnunarbraut í Gryfjunni, sem þeir og kennarar þeirra byrjuðu að setja upp í gær, minnir okkur á fjölbreytta lífríkiskeðju hafsins. Ef hlekkir í henni rofna getur það haft afdrifaríkar afleiðingar.

Hér eru myndir af þessari listsköpun nemenda og uppsetningu vatnaveraldarinnar í Gryfjunni. Hér eru myndir sem Júlíanna Steinunn Sverrisdóttir og Júlía Sveinsdóttir tóku af vinnunni við að móta ljós og skugga í verkið.