Fara í efni

Lífið á heimavistinni á covid-tímum

Um 290 íbúar eru nú á heimavistinni.
Um 290 íbúar eru nú á heimavistinni.

Á sameiginlegri Heimavist MA og VMA eru um 290  íbúar í vetur, þar af um 160 sem stunda nám í Verkmenntaskólanum og um 130 í Menntaskólanum. Eins og annars staðar í samfélaginu hefur þetta haust verið óvenjulegt á heimavistinni vegna kórónuveirufaraldursins og segir Þóra Ragnheiður Stefánsdóttir framkvæmdastjóri að það skipulag sem nú sé unnið eftir sé það þriðja frá því í haust. Skipulag hefur eðlilega þurft að stokka upp í samræmi við útgefnar reglur og tilmæli sóttvarnayfirvalda.

Þóra segir að kórónuveiran hafi því vissulega sett mark sitt á líf heimavistarbúa það sem af er skólaári en engu að síður hafi almennt gengið vel á heimavistinni og íbúar farið vel eftir fyrirmælum og verið duglegir að fylgja persónulegum sóttvörnum.

Eins og gefur að skilja hefur lífið á þessu stóra heimili ekki verið eins og vant er. Þannig hefur t.d. ekki verið hægt að bjóða upp á gestakomur til íbúa, setustofa hefur ekki verið opin til að koma í veg fyrir hópamyndun og ekki verið hægt að bjóða upp á viðburði á vegum heimavistarráðs.

Þóra segir dæmi um að íbúar hafi farið til síns heima eftir að hertar reglur tóku gildi í skólunum og bóknám var í auknum mæli fært í fjarkennslu. Þá hafi þær aðstæður komið upp að íbúar hafi ekki getað farið heim í helgarfrí vegna smita sem hafi komið upp í þeirra heimabyggð. Þóra segir að nokkrir íbúar á heimavistinni hafi þurft að fara í sýnatöku vegna kórónuveirunnar, enda ekki óeðlilegt miðað við aðstæður, en sem betur fer hafi ekki komið upp smit.

Eins og annars staðar hefur heimavistinni verið skipt upp í sóttvarnahólf, eins og kostur er. Nú mega þrjátíu einstaklingar vera í einu í morgun- hádegis- og kvöldmat og gilda fjöldatakmörk einnig um aðgang að þvottahúsinu. „Íbúar fá úthlutað tíma í mat og þvottahús eftir því hvar þeir búa í húsnæðinu. Ég verð að hrósa íbúum fyrir hversu vel þeir fylgja gildandi reglum og því hefur þetta í heildina gengið mjög vel,“ segir Þóra.