Fara í efni

Leyndardómar rafmagnsfræðinnar

Nemendur í grunndeild málmiðna í rafmagnsfræði.
Nemendur í grunndeild málmiðna í rafmagnsfræði.

Rafmagnsfræði er einn af grunnáföngunum sem nemendur í rafiðn taka á fyrstu námsönn sinni og síðan byggja verðandi rafvirkjar og rafeindafræðingar ofan á þann grunn með framhaldsáföngum. Þennan sama grunnáfanga í rafmagnsfræði taka nemendur í grunndeild málmiðna núna á vorönn. Þegar litið var inn í kennslustund nemenda í grunndeild málmiðna í rafmagnsfræði, sem Guðmundur Ingi Geirsson kennir, voru þeir að glíma við mælingapróf.

Mælingaprófið er eitt af mörgum prófum og verkefnum sem nemendur vinna í þessum áfanga og byggir námsmatið á þeim. Ekkert lokapróf er í áfanganum. Guðmundur segir að þetta fyrirkomulag gefi góða raun.

En hvað læra nemendur í grunnáfanga í rafmagnsfræði? Í honum er farið í helstu hugtök og lögmál rafmagnsfræði jafnstraums. Nemendur nýta sér þessi lögmál við reikninga og gera prófanir á þeim með mælingum í jafnstraumsrásum. Farið er yfir mismunandi gerðir spennugjafa auk þess sem nemandinn á að þekkja helstu teiknitákn í einföldum jafnstraumsrásum.

Hugtök sem m.a. koma oft fyrir í áfanganum eru straumur, spenna, viðnám, spennugjafar, jafnstraumsrásir, Ohmslögmál, Kirkhhoffslögmál og afllögmál.