Fara í efni

Léttir að fá staðfestingu á talnablindunni

Ólöf Steinunn Sigurðardóttir.
Ólöf Steinunn Sigurðardóttir.

Ólöf Steinunn Sigurðardóttir er fædd og uppalin á Siglufirði og lauk grunnskóla þar. Kom síðan til Akureyrar og fór á félags- og hugvísindabraut í VMA. „Á þessum tíma vissi ég ekkert hvað ég vildi og tók bara 2-3 áfanga til að byrja með. Á átjánda ári fór ég að hafa meiri áhuga á náminu og tók það fastari tökum,“ segir Ólöf.

Á fyrstu þremur árunum var Ólöf á félags- og hugvísindabraut en færði sig yfir á fjölgreinabraut sl. haust. Hún er opinská um það að stærðfræðin hafi í gegnum tíðina alltaf verið sinn óvinur í námi – bæði í grunnskóla og áfram í framhaldsskóla – en það hafi ekki verð fyrr en á vorönn 2020 sem hafi verið leitt í ljós hver orsakavaldurinn var, nefnilega talnablinda. Ólöf segir að Hilmar Friðjónsson stærðfræðikennari hafi stungið upp á því að kannað yrði hvort hún kynni að vera talnablind og það hafi strax komið í ljós við greiningu Ragnheiðar Gunnbjörnsdóttur, kennara við VMA, í janúar 2020. Við þetta hafi nýr heimur opnast og hún hafi séð alla sína skólagöngu og glímuna við stærðfræðina í algjörlega nýju ljósi.

Ólöf rifjar upp að það hafi í gegnum tíðina verið ómögulegt fyrir sig að ná grunnskilningi í stærðfræði og hún hafi ekki getað skýrt út fyrir öðrum í hverju erfiðleikarnir fælust. Hún hafi ekki haft hugmynd um að hún gæti mögulega verið talnablind enda alls ekki þekkt það hugtak.

„Það var mikill léttir fyrir mig að fá það staðfest að ég væri talnablind. Loksins vissi ég hvert vandamálið væri og að þetta væri eitthvað sem ég gæti ekkert gert við, mér leið betur að vita það. Ég man eftir því í grunnskóla að hafa heyrt um lesblindu en það var aldrei talað um talnablindu. Lestur er mér ekki nein hindrun en tölur á blaði fara í rugl hjá mér,“ segir Ólöf. Hún hefur nú farið í grunnáfanga í stærðfræði í VMA til þess að geta byggt ofan á það sem hún er læra í stærðfræðiáfanga núna á vorönn. „Hilmar hefur verið mér afar hjálplegur og ómetanlegur. Hann getur talað um stærðfræðina, dregið upp myndir af henni og skýrt hana út fyrir mér í stað þess að hún sé bara tölur sem eru mér óskiljanlegar á blaði vegna talnablindunnar,“ segir Ólöf.

„Ég var ekki hissa á því þegar ég fékk það staðfest að ég væri talnablind. Ég hafði brotið sjálfa mig ítrekað niður í leit minni að því hvað væri að. Það talaði enginn um talnablindu og ég vissi því ekkert hvað þetta var. Ég var haldin þeirri ranghugmynd að það væri eitthvað meira en lítið að mér, því ég gæti ekki með nokkru móti skilið og lært stærðfræðina, á sama tíma og mér gekk til dæmis vel í tungumálum,“ segir Ólöf. Hún segir að núna þegar hún viti hvað sé að sé það henni hjálplegt að nota litaðan bakgrunn, hún geti betur lesið tölur á lituðum blöðum, í stað hvítra. Hún nefnir sem dæmi um talnablinduna að hún hafi nánast undantekningalaust víxlað tölustöfunum 6 og 9.

Hún segist sannfærð um að talnablinda sé mun algengari en fólk almennt geri sér grein fyrir. Út frá hennar eigin reynslu séu þetta nemendurnir sem setjist aftast í kennslustofuna í stærðfræðitímum og dragi sig inn í skel, hafi ekki skilning á því sem verið sé að kenna og spyrji ekki. „Ég vil tala opinskátt um þessa hluti ef það mætti verða til þess að hjálpa öðrum sem eru í sömu stöðu og ég var. Ég glímdi við félagsfælni en tókst að komast yfir hana og talnablindan gerði mér líka lengi mjög erfitt fyrir en nú veit ég að hún er til staðar og ég get unnið með hana. Mig langar til þess að hjálpa öðrum í sömu stöðu og  finnst mikilvægt að krakkar opni hug sinn í stað þess að tala ekki um hlutina. Talnablinda hefur ekkert að gera með vitsmuni, þeir sem eru talnablindir þurfa bara að fara aðra leið til þess að ná markmiðum sínum," segir Ólöf.

Stefnan er á brautskráningu í vor og síðan hefur Ólöf hug á að stoppa við og vinna í mögulega hálft annað ár en stefnan sé að sækja um lögreglufræði í Háskólanum á Akureyri. Hún segist á yngri árum hafa hallast að því að læra sálfræði en áhuginn hafi í auknum mæli beinst að lögreglufræðunum og að vinna á þeim vettvangi í framtíðinni. „Mér finnst siðfræði áhugaverð og atferli fólks almennt. Allt kemur þetta við sögu í starfi lögreglumanns,“ segir Ólöf og bætir við að það krefjist mikils undirbúnings að komast í nám í lögreglufræðum. Það sé krefjandi verkefni sem hún ætli sér að vinna markvisst að.