Fara í efni

Lestrarátak í ensku

Niðursokkin í lestur í enskutíma.
Niðursokkin í lestur í enskutíma.

Þeir sem til þekkja eru nokkuð sammála um að unga kynslóðin les ekki jafn mikið af skáldsögum og öðrum afþreyingarbókmenntum og þeir sem nú eru komnir á miðjan aldur eða eldri gerðu á þessum aldri. Þetta á ekki bara við um íslenskar bækur, það sama gildir til dæmis um enskar bókmenntir.

Karen Malmquist kennari hefur í þessari viku gert áhugaverða tilraun með nemendur sína í ENSK2LS05 - sem er annar áfangi ensku á öðru þrepi, þar sem áhersla er lögð á lestur á enskum texta til skilnings. Karen fékk fullt af bókum af bókasafni skólans sem hún valdi með Sirrý bókaverði og nemendur gátu síðan valið bækur til lesturs. Í stað þess að fara með bækurnar heim ákvað Karen að gera þá tilraun að nemendur nýttu enskutímana í þessari viku - 2x2 tíma hvor hópur - til lesturs á bókunum. Þegar litið var inn í kennslustund í gær voru nemendur niðursokknir í lestur á fjölbreyttum enskum bókum.

Karen segist ekki hafa prófað þetta fyrr í kennslu í ensku en þetta sé vissulega tilraunarinnar virði, því lestur sé til þess fallinn að auka orðaforða í enskri tungu og jafnframt að styrkja réttritun, sem er mikilvægt því stafsetning enskra orða vefst fyrir mörgum.

Í lok þessarar lestrartilraunar gerði Karen könnun meðal tæplega 50 nemenda sinna til þess að fá afstöðu þeirra til þess hvort þetta væri eitthvað sem ástæða væri til að leggja meiri áherslu á í kennslunni.