Fara í efni

Leitin að einbeitingu og friði

Pablo Hannon myndlistarmaður.
Pablo Hannon myndlistarmaður.

Í dag, þriðjudaginn 12. mars kl. 17:00-17:40, heldur sílenski/belgíski myndlistarmaðurinn Pablo Hannon Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni 10 Projects, 1 Practice. Fyrirlesturinn verður á ensku og er aðgangur ókeypis.

Um fyrirlesturinn segir Hannon: „Hvað ræður minni listsköpun? Ég safna aðferðum, nálgunum, athygli og löngunum. Ég safna þar til ég spring eða gleymi. Teiknikunnátta mín var áður fræðileg, en ég hef fjarlægst þá nálgun í átt að nýrri línu, enda oft leiður á eigin sköpun eftir nokkurn tíma. Á þessum tímapunkti er æfingin límið á milli þeirra milljóna hluta sem ég er að gera. Þar liggur einbeitingin, en taumurinn er stuttur. Æfingin er 24 tíma fyrirbæri, sem tengir allt í mínu lífi: vini, fjölskyldu, teikningu, kennslu, sköpun, sýningarstjórn, allt. En hvert stefnir þetta? Í lok síðasta árs talaði ég um löngun í átt að einbeitingu að einhverju einu. En svo er allt hitt sem er svo fallegt og gefur mér mikla og fallega orku. Þið sjáið vandamálið mitt. Í þessum fyrirlestri mun ég fjalla um þennan glundroða, en einnig um leitina að einbeitingu og friði og afleiðingu þeirrar leitar.“

Fyrirlestur Hannons er í fyrirlestraröðinni Þriðjudagsfyrirlestrar sem er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins á Akureyri.