Fara í efni

Leikmyndasmiðurinn Tumi Snær

Tumi Snær Sigurðsson.
Tumi Snær Sigurðsson.

Uppfærslu á leikriti má líkja við púsluspil. Allir kubbarnir þurfa að falla á réttan stað til þess að dæmið gangi upp. Leikararnir eru í framlínunni en að tjaldabaki vinnur einnig stór hópur fólks að óteljandi verkefnum, sem eru ekki síður mikilvæg en að standa á sjálfu leiksviðinu. Eitt af mikilvægum púslum að tjaldabaki í púsluspilinu við uppfærslu Lísu í Undralandi, sem Leikfélag VMA frumsýnir annan laugardag, 5. mars, í Gryfjunni í VMA, er Tumi Snær Sigurðsson. Hann stýrir smíði og uppsetningu leikmyndar verksins í samráði við leikstjóra sýningarinnar.

Sviðsmyndin er þessa dagana að verða til á sviðinu í Gryfjunni. Hún byggir á einföldum flekum sem komið er fyrir á sviðinu eftir kúnstarinnar reglum. Tumi hefur sagað efniviðinn í leikmyndina í vélum í byggingadeildinni og nýtur aðstoðar vaskra krakka við að koma þeim fyrir á sviðinu.

Tumi Snær kann til verka enda er hann á sinni síðustu önn í námi í húsasmíði í VMA – lýkur sem sagt náminu í vor og þá á hann bara sveinsprófið eftir. „Ég horfði til þess að fara í rafvirkjun en niðurstaðan var að fara í húsasmíðina og ég sé ekki eftir því. Það kom eiginlega ekkert annað til greina en verklegt nám, ég var búinn að fá nóg af bóklegu fögunum í grunnskóla og langaði því að fara í verknám. Þetta hefur verið skemmtilegt nám og ég hef lært margt. Það var að vísu svekkjandi að geta ekki lokið við sumarhúsið sem okkar hópur var að smíða þegar öllu var skellt í lás í mars 2020 vegna kóvid.“

Lísa í Undralandi er fjórða leiksýningin í VMA sem Tumi tekur þátt í. Hann rifjar upp að hann hafi verið tæknimaður í Bugsý Malón og Tröllum en sl. vetur hafi hann verið í leikmyndasmíðinni og einnig unnið sem tæknimaður. Þetta er því annað árið sem Tumi leggur sín lóð á vogarskálarnar við smíði og uppsetningu leikmyndar.

„Þetta er auðvitað mikil vinna og tekur mikinn tíma en það er virkilega skemmtilegt og gefandi að taka þátt og sjá þetta allt saman verða að veruleika,“ segir Tumi Snær. Hann segist ekki hafa verið virkur í félagslífi í grunnskóla en hafi þeim mun meira tekið þátt eftir að hann hóf nám í VMA. „Ég er á samningi hjá byggingarverktakanum B.Hreiðarssyni en hef ekki verið að vinna á þessari önn, hef einbeitt mér að skólanum á þessari síðustu önn í náminu og nýtt þann tíma sem gefst til þess að taka þátt í leikstarfinu,“ segir Tumi.

Ekki aðeins er Tumi öflugur liðsmaður Leikfélags VMA, hann hefur verið í skátastarfinu á Akureyri um árabil, situr í stjórn Skátafélagsins Klakks og er þar foringi. Eitt af því sem Tumi heldur utan um í skátastarfinu er skíðahópur sem fer í skíðagönguferðir, að jafnaði einu sinni í viku yfir vetrarmánuðina. Stefnt er að því að setja punktinn yfir i-ið í vetrarstarfinu með fjögurra daga skíðagönguferð út á Flateyjardal í dymbilvikunni – stefnt er að því að gista tvær nætur í tjöldum og tvær í skálum.

„Frá 2019 hef ég einnig tekið þátt í starfi björgunarsveitarinnar Súlna. Ég er búinn með nýliðanámið, kominn á svokallaða útkallsskrá og þegar búinn að fara í nokkur útköll. Um þetta starf og skátastarfið gildir það sama og að taka þátt í starfi Leikfélags VMA; félagsskapurinn er skemmtilegur og það er virkilega ánægjulegt að fá að taka þátt,“ segir Tumi.

En hvað ber framtíðin í skauti sér? Um það er erfitt að spá, segir Tumi, en efst á blaði er að ljúka náminu í húsasmíði og ljúka sveinsprófinu. Hvað svo taki við eigi eftir að koma í ljós en eitt af því sem hafi vakið áhuga hans er að starfa sem slökkviliðsmaður.

En þessa dagana er leikmyndasmíðin í Lísu í Undralandi Tuma ofarlega í huga, enda stutt í frumsýningu verksins, laugardaginn 5. mars nk., sem fyrr segir. Miðasala er í fullum gangi – sjá hér.