Fara í efni

Leikfélag VMA sýnir 101 Reykjavík

Ragnar Bollason og Jón Gunnar Þórðarson.
Ragnar Bollason og Jón Gunnar Þórðarson.
Yggdrasil - leikfélag VMA er að hefja æfingar á leikriti Hallgrims Helgasonar, 101 Reykjavík, í leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar. Verkið verður frumsýnt í Rýminu 24. október nk.

Yggdrasil  - leikfélag VMA er að hefja æfingar á leikriti Hallgrims Helgasonar, 101 Reykjavík, í leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar. Verkið verður frumsýnt í Rýminu 24. október nk.

Strax í upphafi haustannar kom í ljós mikill leiklistaráhugi meðal nema í VMA, bæði þeirra sem eldri eru og ekki síður í hópi nýnema, sem skapaði forsendur til þess að setja upp metnaðarfullt og skemmtilegt leikrit.  Fyrir valinu varð leikritið 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason, ekki síst vegna þess að í því eru margar persónur og ættu þvi flestir að fá hlutverk í þeim 20-30 manna hópi sem mætt hefur á fundi og samlestra hjá Yggdrasil. Jón Gunnar Þórðarson var síðan fenginn til þess að leikstýra hópnum en hann er að góðu kunnur fyrir leikstjórn hjá Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Hörgdæla, Freyvangsleikhúsinu og leikfélögum framhaldsskóla. 

Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri í VMA, segist hlakka mikið til þess að sjá útkomuna hjá leikhópnum en ljóst er að vinna verður hratt og örugglega til þess að ná frumsýningu 24. október nk.  „Þetta er mjög sterkur og áhugasamur leikhópur og ég er spenntur að sjá útkomuna.  Það er ljóst að það verða stífar æfingar næstu vikurnar,“ segir Pétur.

Á meðfylgjandi mynd handsala Ragnar Bollason, formaður Yggdrasils, og Jón Gunnar Þórðarson samning um leikstjórn Jóns Gunnars á 101 Reykjavík.