Leikfélag VMA sýnir Ronju Ræningjadóttir
Leikfélag VMA mun í vetur setja upp fjölskyldusýninguna Ronju Ræningjadóttur. Þetta var tilkynnt í Gryfjunni í síðustu viku.
Sýningin byggir á sígildri sögu Astridar Lindgren um Ronju, dóttur ræningjahöfðingjans Mattis, sem elst upp í skóginum þar sem hún lærir að þekkja bæði fegurð og hættur náttúrunnar. Sagan fjallar um vináttu, hugrekki og það að fylgja eigin sannfæringu og hefur heillað kynslóðir barna og fullorðinna um allan heim.
Á morgun, þriðjudaginn 11. nóvember kl 15:40, verður kynningarfundur í B04 fyrir öll þau sem hafa áhuga á að koma að sýningunni hvort sem er að leika í sjálfri sýningunni, aðstoða við förðun og hár, sviðsmynd, tækni eða búninga. Prufurnar verða svo nk. fimmtudag, 13. nóvember. Stefnt er á frumsýningu leikritsins 15. febrúar 2026.
Leikstjóri sýningarinnar er Pétur Guðjónsson, sem margir þekkja vel úr starfi sínu í VMA. Pétur starfaði við skólann í rúman áratug, meðal annars sem viðburðastjóri, og lagði þá ómælt af mörkum til félagslífsins í skólanum. Hann þekkir vel til leiklistarstarfsins í VMA enda hefur hann áður leikstýrt fjórum uppfærslum Leikfélagsins: Tjaldinu (2013), Bjart með köflum (2016), Ávaxtakörfunni (2018) og hinum víðfræga söngleik Grís (2021). Pétur snýr því sannarlega á „fornar slóðir“ nú þegar hann leiðir hópinn í uppsetningunni á Ronju Ræningjadóttur.
Auk þess á og rekur Pétur Draumaleikhúsið, sem stendur fyrir leiklistarskóla og fjölbreyttum námskeiðum, og hefur hann gríðarlega mikla reynslu og þekkingu í leiklistinni sem mun nýtast vel.