Fara í efni

Leggur Rauða krossinum lið í starfsnámi

Valdemar Jón Gunnþórsson að störfum í RK.
Valdemar Jón Gunnþórsson að störfum í RK.

Á þriðja og fjórða ári eru nemendur á starfsbraut VMA í starfsnámi hjá ýmsum fyrirtækjum og stofnunum utan skólans. Með þessu móti öðlast nemendur dýrmæta starfsreynslu og fá innsýn í mismunandi anga vinnumarkaðarins. Núna á haustönn eru nemendur af starfsbraut m.a. við störf á Amtsbókasafninu, Akureyrarflugvelli, í Sólskógum, Slippnum og á leikskólum. Á þessum fjórum síðustu önnum í skólanum eru nemendur á mismunandi vinnustöðum og kynnast því ólíkum störfum.

Rögnvaldur R. Símonarson, kennari á starfsbraut, segir að starfsnámið sé mikilvægur þáttur í náminu og samstarfið við atvinnulífið hafi alltaf verið gott. Fyrir það beri að þakka. Rögnvaldur segir að starfsnámið sé kjarnagrein í náminu á starfsbraut og það sé því fellt inn í stundatöflu nemenda. Tvisvar í viku eru þeir á vinnustað, annað hvort fyrir eða eftir hádegi. Í skólanum fá nemendur síðan fræðslu um ýmislegt er lýtur að vinnumarkaðnum, varðandi réttindi og skyldur, kjaramál og verkalýðsfélög, öryggi, hollustuhætti o.fl. Á síðustu önninni er síðan farið yfir reynsluna af starfsnáminu með viðkomandi, forráðamönnum og fulltrúum AMS – Atvinnu með stuðningi hjá Vinnumálastofnun. „Markmiðið er að búa nemendur eins og vel og kostur er undir störf á vinnumarkaði,“ segir Rögnvaldur.

Einn af nemendunum á starfsbraut, Valdemar Jón Gunnþórsson, er í starfsnámi á þessari önn hjá Rauða krossinum á Akureyri. Hann vinnur hálfan daginn, frá 08:15-12:00, tvo daga í viku. Ingibjörg Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Akureyri, segir að þegar spurst var fyrir um þann möguleika að nemandi úr VMA gæti tekið starfsnám hjá Rauða krossinum hafi því erindi verið tekið mjög jákvætt. Valdemar vinnur þessa tvo morgna með sjálfboðaliðum Rauða krossins að ýmsum verkefnum en þó fyrst og fremst að því að flokka föt sem fólk lætur Rauða krossinum í té. Valdemar segist kunna því afar vel að starfa hjá Rauða krossinum en áður hafði hann unnið í starfsnámi bæði hjá Bónus og Krambúðinni. „Mér finnst mjög gaman að vinna hérna hjá Rauða krossinum,“ segir Valdemar.

Gríðarlegt magn af fatnaði kemur til Rauða krossins á degi hverjum og því er mikil vinna að flokka hann. „Við fáum áberandi mest af fatnaði í kringum stórhátíðir og einnig eru hér allir fatagámar fullir eftir helgarnar þegar fólk fer í skápana og skiptir út fatnaði. Við höfum nýlega bætt við einum fatagámi og nú eru þeir átta. Á því var full þörf, á mánudagsmorgum eru allir gámar yfirfullir af fötum. Okkur virðist sem að undanförnu hafi aukist töluvert að fólk komi með föt til okkar og fyrir það viljum við þakka,“ segir Ingibjörg.

 Vel með farinn fatnaður og nýr fatnaður fer til sölu í fatabúð Rauða krossins á Akureyri, sem er opin frá kl. 13 til 17 alla virka daga, en einnig er umtalsvert magn af fötum sent til Hvíta-Rússlands þar sem þau koma fólki að góðum notum og einnig fer mikið af fatnaði í gámum til Hollands þar sem hann er endurnýttur.

Ingibjörg framkvæmdastjóri segir þetta samstarf Rauða krossins og Verkmenntaskólans vera til fyrirmyndar og hún segist hafa mikinn áhuga á því að auka samstarf við skólann á ýmsum sviðum og skólakerfið almennt.