Fara í efni

Langt komnir í múrsmíðinni

Átta af níu nemendum í múrsmíði.
Átta af níu nemendum í múrsmíði.

Múrsmíði er kennd undir hatti byggingadeildar VMA og er fagið kennt þegar nægilega margir skrá sig. Nú er einn níu nemenda námshópur í múrsmíði við skólann og er hann nú að ljúka sinni þriðju af fjórðu önn námsins undir handleiðslu Bjarna Bjarnasonar múrarameistara. Nemendurnir, sem allir eru frá Akureyri, ljúka námi sínu við VMA í árslok.

Námið er sett upp sem lotunám enda eru allir nemendur í fullri vinnu í faginu, sumir hafa starfað í múriðn til fjölda ára. Það er því mikil reynsla og þekking í hópnum, að sögn Bjarna Bjarnasonar. Hann segir að ætla megi að sem næst helmingur námsins sé bóklegur og helmingur verklegur. Verklega hlutann læri nemendur að miklu leyti undir handleiðslu sinna meistara.

Undanfari náms í múrsmíði eru tvær annir í grunndeild byggingadeildar. Sem stendur eru nemendur í byggingadeild VMA í tveimur öðrum iðngreinum; húsasmíði og pípulögnum.