Fara í efni

Með ótakmarkaðan áhuga á Land Rover

Stoltur undir stýri í Land Rover '67.
Stoltur undir stýri í Land Rover '67.

„Ætli þetta sé ekki allt pabba að kenna? Hann hefur átt Land Rover síðan ég man eftir mér og það má segja að ég hafi smitast af þessum áhuga. Við erum með verkstæði fyrir norðan Akureyri þar sem við erum meðal annars í bílaviðgerðum og þangað tók pabbi mig með sér þegar ég var lítill og ég fylgdist með honum. Ég fékk þetta því nánast beint í æð,“ segir Hrannar Ingi Óttarsson, sautján ára nemi í grunndeild málmiðnaðar í VMA. Hann er svo vægt sé til orða tekið forfallinn Land Rover aðdáandi.

Fyrsta Land Roverinn eignaðist Hrannar Ingi árið 2011, þegar hann var þrettán ára gamall, en hann varð að gera sér að góðu að horfa á gripinn og auðvitað gera hann upp áður en hann síðan gat keyrt hann í júní sl. þegar hann fékk bílprófið. „Pabbi borgaði bílinn fyrir mig og ég skuldaði honum því andvirði bílsins, áttatíu þúsund krónur. En svo heppilega vildi til að hann gaf mér síðan bílinn í fermingargjöf og þá jafnaðist skuldin út,“ segir Hrannar Ingi. Umræddur bíll er Land Rover ´67 módel, blár og hvítur að lit. „Þetta er minn uppáhalds bíll og ég passa vel upp á hann, bóna hann tvisvar í mánuði.“

Hrannar Ingi fékk síðan annan Land Rover ´74 módel að gjöf og kom honum í gang og setti á hann númer. „Sá bíll var hrikalega illa farinn en við áttum varahluti í hann og röðuðum þessu öllu saman og komum honum á götuna. Og núna er ég að byrja að setja saman Land Rover alveg frá grunni. Það verður gaman að takast á við það verkefni,“ segir Hrannar Ingi og sýnir stoltur grindina undir þennan væntanlega Land Rover. Það er greinilega mikil vinna framundan.

Auk Land Rover bílanna tveggja á Hrannar Ingi eitt stykki Fiat 127 og einn VW rúgbrauð. En hver skyldi vera ástæðan fyrir þessari sönnu ástríðu í garð Land Rover bílanna? „Mér finnst þeir bara svo hrikalega flottir. Það jafnast ekkert á við þessa bíla. Þetta er ástríða og ég hugsa að það séu kannski ekki margir á mínum aldri sem hafa svipað áhugamál. Ég þekki þó einn, Jón Hallmar Stefánsson, sem er einn af mínum bestu vinum. Hann á gamlan Land Rover og við munum alveg örugglega fara í margar Land Rover ferðir næsta sumar,“ segir Hrannar Ingi.

Þeir feðgar Óttar og Hrannar Ingi lesa sér að sjálfsögðu til um þessi gömlu djásn. „Ætli við eigum ekki svona þrjú hundruð Land Rover blöð. Við höfum líka farið á Land Rover mót í Billing í Englandi, sem er það stærsta í heimi. Við fórum á Land Rovernum hans pabba og gistum í bílnum. Ég var lítill þegar þetta var en ég á alveg örugglega eftir að fara aftur einhvern tímann seinna.“

Hrannar Ingi segir að árlega séu haldin landsmót Land Rover eigenda á Íslandi. „Ég hef farið á öll þessi mót síðan 2004. Síðastliðið sumar var mótið haldið í Ártúni í Grýtubakkahreppi. Þarna er alltaf gríðarlega mikil stemning, menn mæta að sjálfsögðu á sínum Land Roverum og síðan er farið í ferðir og grillað – að sjálfsögðu með Land Rover grilli sem við útbjuggum.“

Það lá kannski beint við að Hrannar Ingi færi í grunndeild málmiðnaðar í VMA því áhugi hans liggur í viðgerðum og málmsmíði. Eins og er segir hann að áhuginn beinist í átt að bifvélavirkjun eða bílasmíði, hvað svo sem síðar kann að verða. Það leiðir tíminn í ljós.