Fara í efni

LAN-mót VMA í tölvuleikjum um helgina

Marías Viggósson og Þorsteinn Jón Thorlacius.
Marías Viggósson og Þorsteinn Jón Thorlacius.

Í dag kl. 16 hefst í VMA svokallað LAN-mót í tölvuleikjum – en LAN er skammstöfun á Local Area Network. Mótið, sem lýkur kl. 11 að morgni nk. sunnudags, er orðið að föstum lið í félagslífinu í skólanum og verður haldið aftur á vorönn. Um undirbúning og framkvæmd LAN-mótsins sjá nemendur í rafeindavirkjun í VMA. Rétt er að taka fram að þó svo að mótið sé haldið innan veggja skólans er það opið öllum sem áhuga hafa á tölvuleikjum. Eins og allar aðrar skemmtanir sem eru í nafni skólans eru vímuefnaneysla og reykingar af öllu tagi bannaðar

„Þetta hefur verið heilmikill undirbúningur og í mörg horn að líta,“ segir Þorsteinn Jón Thorlacius, einn nemenda í rafeindavirkjun en þessi undirbúningsvinna er nú hluti af áfanga í rafeindavirkjun sem heitir „Net og miðlun“. Þorsteinn segist hafa komið að undirbúningi þriggja LAN-móta í skólanum og þar áður tók hann þátt í tveimur slíkum mótum. „Við verðum með eina sex manna keppni, tvær fimm manna keppnir og einstaklingskeppnir. Þetta er opið öllum og fólk getur komið þegar það vill. Það kostar 3000 krónur inn og innifalinn er kvöldmatur bæði föstudags- og laugardagskvöld og hádegismatur á laugardag. Mótið verður án uppihalds til klukkan ellefu á sunnudagsmorguninn. Við höfum safnað fjölmörgum vinningum af ýmsum toga fyrir þá sem vinna keppnirnar og auk þess fá þeir merkta boli. Þátttakendur koma með sínar tölvur og okkar er passa upp á rafmagns- og nettengingar,“ segir Þorsteinn.

Mótið fer fram í M01 og M03 og er Þorsteinn bjartsýnn á góða þátttöku. „Það eru margir sem spila tölvuleiki reglulega og ég hef góða tilfinningu fyrir þátttökunni að þessu sinni. Keppnisskapið er á sínum stað hjá tölvuspilurum og stemningin mikil.“

Keppt verður í ýmsum þekktum og vinsælum leikjum, t.d. Overwatch, CS:GO, Hearthstone, League of Legends, Rainbow six Siege, Tekken, og Pubg.