Fara í efni

Læt þetta ekki stoppa mig

Dagbjört Ósk Jónsdóttir.
Dagbjört Ósk Jónsdóttir.

Akureyringurinn Dagbjört Ósk Jónsdóttir hóf nám á listnáms- og hönnunarbraut VMA sl. haust. Leið hennar að settu marki er á ýmsan veg önnur en annarra nemenda því hún er mjög sjónskert. Árið 2016 missti hún alfarið sjónina á hægra auga og sjónin á vinstra auganu hefur daprast undanfarin þrjú ár og telur Dagbjört að hún sé milli 20 og 30% af fullri sjón.

Ef eitthvert eitt orð næði að lýsa Dagbjörtu Ósk og hvernig hún tekst á við sitt daglega líf í skóla og utan hans myndi það vera æðruleysi. Sjóndepran hefur vitaskuld áhrif á hverjum einasta degi en Dagbjört lætur hana ekki slá sig út af laginu og tekst á við skólagöngu sína í VMA og lífið almennt af fádæma yfirvegun og dugnaði.

„Til ársins 2016 var ég með eðlilega sjón en á því ári missti ég skyndilega sjónina á hægra auganu. Sjónin á vinstra auganu breyttist hins vegar ekki en mig minnir að það hafi síðan verið á árinu 2018 sem ég fór að fá sem var kallað sjónköst í vinstra augað og í kjölfarið versnaði sjónin á því verulega. Ég fór á sjúkrahús í lyfjagjöf sem  hafði þau tilætluðu áhrif að sjónin kom til baka. En á síðasta ári og þessu ári hefur sjónin á vinstra auganu minnkað umtalsvert og lyfjagjöf hefur ekki getað komið í veg fyrir það. Í ljós hefur komið að um er að ræða sjálfsofnæmi þar sem hvítu blóðkörnin ráðast á sjóntaugarnar. Þetta er afar sjaldgæfur sjúkdómur sem kallast CRION – sem er skammstöfun fyrir Chronic Relapsing Inflammatory Optic Neuropathy. Ég skil það svo að ég sé sú eina á Íslandi með þennan sjúkdóm og fyrir tveimur árum var mér sagt að í heiminum væru aðeins 120 tilfelli. Til að byrja með var talið að ég væri mögulega með MS því sá sjúkdómur er þekktur í minni fjölskyldu, en annað kom á daginn.
Til þess að halda hvítu blóðkornunum í skefjum þarf ég reglulega að fara í lyfjagjöf. Ég fer á Sjúkrahúsið á Akureyri og fæ þar lyf einu sinni í mánuði. Einnig fer ég tvisvar á ári til Reykjavíkur í lyfjagjöf. Auk þess tek ég töflur á hverjum degi til þess að halda ónæmiskerfinu niðri. Ég velti því ekki mikið fyrir mér hvort sjónin muni minnka enn frekar á vinstra auganu eða ef til vill alveg hverfa í framtíðinni, ég lifi í núinu og það er það sem skiptir máli,“ segir Dagbjört Ósk.

Dagbjört Ósk segist vera þannig gerð að þær hindranir sem hún hafi mætt á undanförnum árum hafi ekki sett sig út af laginu. „Þegar ég missti sjónina á hægra auganu árið 2016 gerðist það mjög snögglega og ég gaf mér eiginlega aldrei tíma til þess að velta mér mikið upp úr því. En eftir á að hyggja var þetta auðvitað sjokk og maður dofnaði eiginlega fyrir þessu. Og þó að sjónin hafi einnig minnkað á hinu auganu er ekkert annað að gera en að lifa lífinu áfram, ég get ekkert gert í þessu nema að halda áfram. Auðvitað þarf ég ýmsa aðstoð í náminu en ég læt þetta ekki stoppa mig. Ég nota mikið tölvu, síma og iPad. Þegar kennararnir skrifa á töfluna tek ég myndir á símann minn og stækka síðan upp. Þannig næ ég að fylgjast með. Það hefur hjálpað mér, t.d. í stærðfræðinni, að hafa svartan bakgrunn og stafina hvíta. Ég sé þá betur en svart letur á hvítum grunni. Ég nota líka stækkunargler og ýmis önnur hjálpartæki,“ segir Dagbjört Ósk  en sem fyrr segir er hún á listnáms- og hönnunarbraut VMA og segist njóta þess að teikna og skapa. IPadinn er henni afar hjálplegur í listsköpuninni og það fer ekki á milli mála að hæfileikarnir eru miklir. Hér eru dæmi um myndir sem Dagbjört hefur gert á þessu ári.