Fara í efni

Lærdómsríkt og skemmtilegt

Kristjana Lóa (t.v.) og Íris Birna.
Kristjana Lóa (t.v.) og Íris Birna.

„Mér fannst þetta mjög skemmtilegt. Það var í senn þroskandi og gefandi að standa á eigin fótum og takast á við nýjar áskoranir í öðru landi og upplifa nýja hluti. Ég kynntist ýmsu sem ég hafði ekki þekkt úr faginu hér heima. Þegar upp var staðið vikkaði þetta út sjóndeildarhringinn sem var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt,“ segir Kristjana Lóa Sölvadóttir, nemi í hársnyrtiiðn, en hún var í sex vikna starfsnámi í Þrándheimi sl. haust ásamt Írisi Birnu Kristinsdóttur.

Báðar eru þær á fjórðu önn í námi sínu í VMA og eiga eftir tvær annir að þessari lokinni. Þeim bauðst styrkur til þess að fara til Þrándheims og taka hluta af sínu starfsnámi síni en þar ytra er skortur á nemum í hársnyrtiiðn og því var auðveldara en ella að fá pláss fyrir þær á hársnyrtistofum.

„Það var afar áhugavert og þroskandi að vera í nýju umhverfi og fá tækifæri til þess að kynnast nýjum hlutum, ég var mjög ánægð með þetta,“ segir Íris Birna Kristinsdóttir um dvölina í Þrándheimi. Hún segir að vinnustaðanámið í Þrándheimi sé metið sem hluti samningstíma sem nemendur þurfi að ljúka. Íris segist vera mjög sátt með hársnyrtinámið í VMA, hún hafi lengi átt sér þann draum að fara í þetta nám og hafi síður en svo orðið fyrir vonbrigðum. Með náminu í VMA vinnur Íris á hársnyrtistofunni Zone á Akureyri.

Þegar litið var í heimsókn til nemendanna í hársnyrtiiðn í VMA voru þeir önnum kafnir við að þjálfa sig í að setja permanent í hár.

Bæði Kristjana Lóa og Íris Birna segjast báðar geta mælt eindregið með að nemendur víkki út sjóndeildarhringinn með því að fara út fyrir landsteinana í starfsnám, ef þeir á annað borð eigi kost á því. Raunar líkaði Kristjönu Lóu það vel ytra að hún hefur fullan hug á því að vinna hluta úr næsta sumri á sömu hársnyrtistofu í Þrándheimi og hún tók starfsnámið sl. haust. „Mér stendur til boða að vinna þarna úti næsta sumar og eins og staðan er núna stefni ég á það,“ segir Kristjana Lóa.