Fara í efni

Lærdómsrík og skemmtileg vinna

Eyþór Daði Eyþórsson.
Eyþór Daði Eyþórsson.

„Það er bara fínt að skólinn sé kominn í gang og veturinn leggst vel í okkur,“ segir Eyþór Daði Eyþórsson formaður nemendafélagsins Þórdunu. „Ég var skemmtanastjóri í stjórn Þórdunu í fyrra og þá kynntist ég því vel út á hvað þetta gengur. Sú reynsla á eftir að nýtast mér vel. Það er vissulega mikil vinna að vera formaður nemendafélagsins en þetta er í senn lærdómsrík og skemmtileg vinna. Ég er fyrst og fremst afar spenntur fyrir vetrinum,“ segir Eyþór Daði.

Félagslífið fer af stað með hefðbundnum hætti. Á morgun, miðvikudag, eru árlegar nýnemaferðir út fyrir bæinn sem skólinn sér um en á fimmtudag er komið að nemendafélaginu að taka með formlegum hætti á móti nýnemum og bjóða þá velkomna í skólann. Það er gert með því að bjóða til grillveislu og einnig verða leikir og skemmtiatriði. Að kvöldi dags verður efnt til nýnemaballs á Pósthúsbarnum.

Að venju eru nokkrir stórir viðburðir í félagslífinu og að þessu sinni verða þeir allir á vorönn. Þetta er uppfærsla leikrits, sem eins og kom fram hér á heimasíðunni sl. föstudag verður söngleikurinn Bugsy Malone, Sturtuhausinn – Söngkeppni VMA, sem fer fram í Hofi 24. janúar, og árshátíð, sem verður í mars.

„Við ætlum núna á haustönn að efna til nokkurra smærri viðburða og leggjum áherslu á að virkja nemendur til þátttöku eins og kostur er.  Nefna má skemmtikvöld, bingó, spilakvöld, uppistandskvöld og Gryfjutónleika sem voru í fyrsta skipti haldnir í fyrra og tókust með miklum ágætum.  Við munum kynna rækilega alla þessa viðburði þegar nær dregur,“ segir Eyþór Daði.