Fara í efni

Kynntust í VMA - í búskap í Kelduhverfi

Jónas Þór og Salbjörg með yngra barn sitt.
Jónas Þór og Salbjörg með yngra barn sitt.

Þetta byrjaði allt saman í Verkmenntaskólanum á Akureyri forðum daga. Þar kynntust Salbjörg Matthíasdóttir, sem kemur úr Kelduhverfinu, og Aðaldælingurinn Jónas Þór Viðarsson. Salbjörg fór fyrst á íþróttabraut VMA en færði sig yfir á náttúrufræðibraut, því hún stefndi að því að læra dýralækningar, en Jónas Þór fór í byggingadeildina og lærði húsasmíði. Salbjörg lauk stúdentsprófi um jólin 2008 en Jónas Þór lauk námi sínu röskum tveimur árum síðar.

Áform Salbjargar um að læra dýralækningar breyttust á námstímanum í VMA og úr varð að haustið 2008 hóf hún nám í hestafræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Síðari hluta námsins tók Salbjörg við hrossaræktarbrautina á Hólum í Hjaltadal og þá hafði Jónas Þór lokið húsasmíðinni í VMA og vann við smíðar hjá K-tak hf. byggingaverktaka á Sauðárkróki. Um tíma starfaði Salbjörg við tamningar á bænum Hofi í Skagafirði en málin æxluðust þannig að í árslok 2014 ákváðu þau að stíga skrefið og hella sér út í sauðfjárbúskap í Árdal í Kelduhverfi, þar sem Salbjörg fæddist og ólst upp. Þetta var nokkuð stórt skref að taka en þekking þeirra beggja og reynsla úr smíðum og hrossaræktinni var gott veganesti.

Sauðfjárbúskapur, smíðar og ferðaþjónusta
Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að sauðfjárbúskapur hefur ekki gengið vel síðustu misseri og haustið 2015, á fyrsta ári sauðfjárbúskapar Salbjargar og Jónasar í Árdal, varð mikið verðfall á sauðfjárafurðum. Þau ákváðu þó að þrauka og tóku um það ákvörðun að bæta annarri stoðinni undir reksturinn með því að innrétta þrjú herbergi á efri hæð hússins fyrir gistingu. Síðustu þrjú sumur hefur því verið bændagisting í Árdal sem hefur gengið ljómandi vel. Það var hins vegar ljóst að erfitt myndi verða að halda áfram með þessa gistingu inni á heimilinu því eftir að hafa eignast tvö börn – það eldra er tveggja ára og það yngra tæplega ársgamalt – þyrfti fjölskyldan meira rými. Salbjörg segir að af þessum sökum hafi þau velt fyrir sér hvernig þau gætu mögulega haldið áfram með ferðaþjónustuna og haft hana annars staðar en í Árdal. En eins og oft vill verða kom tækifærið upp í hendurnar á þeim í febrúar sl. Í Skúlagarði í Kelduhverfi, sem er í túnfætinum í Árdal, hefur til margra ára verið rekin ferðaþjónusta – gisting og veitingasala – og svo vildi til að skyndilega vantaði þar rekstraraðila í vetur. Salbjörg og Jónas ákváðu að taka Skúlagarð á leigu enda var þarna komið tækifærið sem þau höfðu verið að leita að og ekki sakaði að þau þekktu vel til ferðaþjónustunnar í Skúlagarði, foreldrar Salbjargar höfðu hér á árum áður haldið utan um reksturinn og þar höfðu Salbjörg og Jónas unnið sumarlangt þegar þau voru við nám í VMA forðum daga. Salbjörg segir að þau hafi ekki séð fram á að geta farið í svo viðamikinn rekstur, til viðbótar við sauðfjárbúskapinn og önnur störf sem þau hafi tekið að sér, Jónas Þór starfar í hálfu starfi við smíðakennsku í grunnskólanum og hefur þar að auki mikið að gera með eigin rekstur í húsasmíði. En þegar fyrir lá vilji foreldra Jónasar að fara í reksturinn í Skúlagarði með þeim, var ekki aftur snúið. Nú þegar er búið að opna Skúlagarð en vertíðin hefst af fullum krafti núna í maí og á sama tíma er sauðburður í fullum gangi, um 170 ær eru á fóðrum í Árdal. Stefnan er að hafa opinn veitingastað í Skúlagarði, til viðbótar við gistinguna, frá 18-21 alla daga í sumar.

Sátt við sitt hlutskipti
Þegar Salbjörg lítur til baka til áformanna um að fara í dýralækningar að loknu námi í VMA segist hún þó vera afar sátt við sitt hlutskipti í dag. Það sé skemmtileg áskorun fyrir ungt fólk að synda á móti straumnum og skapa tækifæri úti í hinum dreifðu byggðum. Það segi sína sögu um ákveðna kyrrstöðu í fámennu byggðarlagi að hún og Jónas Þór, eiginmaður hennar, séu þau einu á aldrinum 25-35 ára sem eru búsett í Kelduhverfi nú um stundir. Þessu þurfi að snúa við og þau vilji leggja sín lóð á vogarskálarnar. Bjartsýnin reki þau áfram og síðustu tvö ár hafi þau selt sauðfjárafurðirnar beint frá býli, sem hafi gefið þeim mun meira í aðra hönd. Stór hluti afurðanna fari beint til neytenda á höfuðborgarsvæðinu. Til viðbótar við beina sölu frá búinu komi þau síðan til með að bjóða upp á eigið lambakjöt fyrir gesti og gangandi í Skúlagarði.