Fara í efni

Kynntu starfsemi Slippsins

F.v. Adam Snær, Adólf, Svala Björk og Sveinbjörn.
F.v. Adam Snær, Adólf, Svala Björk og Sveinbjörn.

Þess verður aldrei of oft getið hversu mikilvægt gott samstarf VMA við atvinnulífið er. Það skiptir að sjálfsögðu atvinnulífið öllu máli að fá vel menntað fólk til starfa og það er skólanum afar mikilvægt að fá góða sýn á hvað fyrirtækin eru að fást við á hverjum tíma. Málmiðnaðfyrirtæki og fagfélög málmiðnaðarins hafa í gegnum tíðina stutt mjög vel við starf málmiðnbrautar VMA. Eitt þeirra er Slippurinn Akureyri, sem er stærsta málmiðnfyrirtæki landsins.

Í þessari viku hafa fulltrúar Slippsins haldið þrjár kynningar á starfsemi fyrirtækisins fyrir nemendur í grunndeild málmiðnaðar, nemendur í smíðagreinum málmiðnaðar og vélstjórnarnema þar sem varpað hefur verið ljósi á fjölbreytt starf Slippsins.

Sveinbjörn Pálsson verkfræðingur í Slippnum segir að þegar fólk heyri af Slippnum komi fyrst upp í hugann hin ýmsu verk er lúti að skipum og sjávarútvegi. Sú hugsun sé rétt en fyrirtækið standi fyrir miklu fleira. Þar séu í gangi á hverjum tíma ótal mörg önnur stór verkefni í nýsmíði og viðgerðum fyrir ótal mörg fyrirtæki. Flest verkefnin séu hér innanlands en einnig séu verkefni utan langsteinanna.

Slippurinn er með flotkví, sem var sett upp fyrir aldarfjórðungi. Hún hefur reynst fyrirtækinu afar vel og er mikilvægur þáttur í því að stór skip komi í viðhald í Slippnum. Einnig eru tvær dráttarbrautir, önnur er 40 metra og hin 80 metra löng.

Sveinbjörn nefndi í kynningu sinni að innan fyrirtækisins væru m.a. vélsmiðja, stálsmíði, ryðfrí deild, hönnunardeild, trésmíðaverkstæði o.fl. – sem þýðir að hin daglegu verkefni eru fjölbreytt og af ýmsum toga í fyrirtæki þar sem eru um 130 starfsmenn.

Auk Sveinbjörns tóku þátt í kynningunni Adólf Svavarsson, sem er lærður vélvirki (frá VMA árið 2012) og flugvirki. Um tveggja ára skeið starfaði hann sem flugvirki en kom aftur til starfa í Slippnum. Einnig kynntu fyrirtækið Adam Snær Atlason málmsuðumaður og Svala Björk Svavarsdóttir, sem útskrifast sem vélstjóri frá VMA í vor. Undanfarin sumur hefur hún starfað í Slippnum.

Fulltrúum Slippsins er þökkuð greinargóð kynning á fyrirtækinu sem gaf góða sýn á yfirgripsmikla starfsemi.