Fara í efni

Kynntu áherslur sínar á framboðsfundi í VMA

Frá framboðsfundinum í Gryfjunni í gær.
Frá framboðsfundinum í Gryfjunni í gær.

Landsmenn ganga að kjörborðinu laugardaginn 28. október nk. og kjósa 63 þingmenn á Alþingi. Kjörfundur á Akureyri verður sem fyrr í VMA. Síðast var kosið á sama stað til Alþingis fyrir réttu ári síðan, laugardaginn 29. október 2016. Boðað var til kosninga með skömmum fyrirvara og því er kosningabaráttan að þessu sinni óvenju stutt.

Í gær var efnt til framboðsfundar í Gryfjunni í VMA þar sem voru fulltrúar átta þeirra flokka sem bjóða fram í Norðausturkjördæmi; Bjartar framtíðar, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Pírata, Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Flokks fólksins. Fundarstjórn var í höndum Írisar Hrannar Garðarsdóttur og Ólafs Görans Ólafssonar Gros.

Fulltrúar flokkanna voru:

Björt framtíð: Arngrímur Viðar Ásgeirsson
Sjálfstæðisflokkur: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Framsóknarflokkur: Þórunn Egilsdóttir
Vinstri grænir: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Viðreisn: Hildur Betty Kristjánsdóttir
Píratar: Hrafndís Bára Einarsdóttir
Samfylkingin: María Hjálmarsdóttir
Flokkur fólksins: Pétur Einarsson

Fulltrúar flokkanna voru með stutt ávörp í byrjun fundarins. Síðan leitaði Íris Hrönn fundarstjóri svara hjá öllum frambjóðendum við nokkrum spurningum og loks svöruðu þeir spurningum nemenda úr sal. Fundurinn, sem var í það heila um tveir tímar, var málefnalegur og um margt upplýsandi. Eins og vera ber var áhersla frambjóðendanna misjöfn í einstaka málum en um eitt atriði voru þeir þó allir sammála; að hvetja nemendur VMA – 18 ára og eldri – til þess að mæta á kjörstað 28. október nk. og nýta kosningaréttinn.