Fara í efni

Kynntu sér nýjar uppfærslur í Moodle

Adam kynnir nýjar Moodle uppfærslur.
Adam kynnir nýjar Moodle uppfærslur.

„Kennarar leita margra leiða til þess að setja námsefni og verkefni fram á margbreytilegan hátt, ekki síst núna á tímum covid 19 þegar hluti af bóknámsáföngum er kenndur í fjarnámi,“ segir Adam Ásgeir Óskarsson, kennari og helsti sérfræðingur VMA í Moodle kennslukerfinu sem skólinn hefur notað síðan 2008. Hann var á dögunum með námskeið fyrir kennara VMA þar sem hann fór yfir nýjar uppfærslur í Moodle og hvernig unnt væri að nýta nýjungar í kerfinu til framsetningar námsefnis og verkefna fyrir nemendur.

„Í þessu óvenjulega ástandi leggja kennarar mikið á sig til þess að tileinka sér nýjungar og alla þá möguleika sem í boði eru í kennslu. Á liðnu sumri voru nýjar uppfærslur í Moodle kerfinu sem m.a. taka til gagnvirkni í spurningum og verkefnum. Þessar nýjungar gefa færi á að vinna ýmiskonar margmiðlunarefni í kennslu – búa til myndrænar spurningar, vinna með myndbönd og fleira. Á námskeiði fyrir samkennara mína var ég m.a. að kynna þeim nýjungar í Moodle til þess að þeir geti nýtt sér þær í kennslu í sínum áföngum. Sjálfur hef ég notað þessar tæknilausnir í stærðfræðikennslu til viðbótar við annað og ég heyri ekki annað en að nemendum líki þetta vel,“ segir Adam. Hann segir að ýmsar leiðir séu til fjarfundakennslu – m.a. Zoom, Google Meet eða Bigbluebutton í Moodle, sem Adam segist nota í sinni kennslu og það kerfi virki mjög vel.

„Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur sem kunnugt er gert það að verkum að fjarkennsla hefur aukist og um leið hafa kennarar lagt mikið á sig til þess að miðla námsefni til nemenda á sem bestan og skilvirkastan hátt. Þessar nýju uppfærslur í Moodle kerfinu eru góð viðbót við annað sem mögulegt er að nota í þessum efnum,“ segir Adam.