Fara í efni

Kynntu sér gæðakerfi

Hrafnhildur með nemendum sínum í Norðurorku.
Hrafnhildur með nemendum sínum í Norðurorku.

Á vorönn kenndi Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir nemendum í málmiðnaði grunninn í ýmsum gæðakerfum, þar sem bæði gæðavitund og gæðastjórnun komu við sögu. Farið var yfir GÁMES sem er t.d. notað í matvælaiðnaði, gæðakerfi Samtaka iðnaðarins og ISO 9001.

Hrafnhildur segir að þessi áfangi hafi verið mjög mikilvægur fyrir nemendur vegna þess að líklegt sé að þeir þurfi að vinna verk þar sem mismunandi gæðakerfi og öryggisreglur gildi. Í áfanganum var farið í hvað þurfi að hafa í huga í vinnu fyrir matvælafyrirtæki, að hverju þurfi að huga ef gera eigi við loftræsingu á skurðstofu, hvað þurfi að hafa í huga þegar þurfi að sjóða í lögn með neysluvatni o.s.frv.

Í áfanganum var farið í heimsóknir og kynningar í Norðurorku, Kjarnafæði og VMA og hópurinn fékk kynningu frá Samtökum iðnaðarins.

Heimsókn í Norðurorku

Í heimsókn nemenda og kennara í Norðurorku tók Gunnur Ýr Stefánsdóttir, verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra, á móti hópnum. Nemendum þótti áhugaverðar þær upplýsingar sem Gunnur Ýr bar á borð fyrir þá. Hér eru nokkrar umsagnir nemenda:

Áhugaverð kynning. Hún talað mikið um vatnsból okkar Akureyringa. Þau eru í Hlíðarfjalli að mestu leiti og nákvæmlega þar sem ég fer á vélsleða á veturna. En ekki lengur, ekki eftir þessa heimsókn.“

Gunnur var með kynningu á starfsemi og gæðakerfi Norðurorku. Þar talaði hún um merkilega hluti eins og vatnsverndarsvæðið og að það sé bannað að vera á vélknúnum ökutækjum. Samt sem áður hafa orðið slys á vatnsverndarsvæðum og síðast bara núna um daginn en moka þurfti miklum jarðvegi upp og hafa jarðvegsskipti. Sem betur fer slapp þetta til því mengun í vatnsbólinu hefði haft slæmar afleiðingar.“

Mér finnst gæðakerfi Norðurorku þó nokkuð gott og það virðist aðeins vera að eflast. Mikilvægasti hluti kerfisins virðist tengjast olíuslysum og miðað við kynninguna heyrist mér fyrirtækið vera með mjög góð viðbrögð þegar þau verða.“

Skoðunarferðin um húsnæði Norðurorku var virkilega skemmtileg.Við hittum þar tvo verkstjóra sem svöruðu spurningum okkar. Gaman að sjá.“

Heimsókn í Kjarnafæði

Gunnlaugur Eiðsson framkvæmdastjóri og Friðrik Magnússon gæðastjóri tóku á móti nemendum og kennara. Hér eru umsagnir nokkurra nemenda um heimsóknina.

Gulli og Friðrik tóku á móti okkur. Það var frábært hversu mikinn áhuga og metnað þeir höfðu á gæðakerfinu og fyrirtækinu.“

Jákvætt að fara í heimsókn og fá snakk og gos.“

Góð kynning og flottir gæjar. Hefði viljað fá að ganga um húsið.“

Gulli og Friðrik gæðastjóri tóku á móti okkur. Þeir töluðu mjög skýrt um sitt gæðakerfi og hvernig þeir hugsa um það á jákvæðan hátt, ekkert kjaftæði þegar kemur að óhreinindum og þrifnaði sem er mjög mikilvægt í þessari grein.“

Jákvætt hvernig fyrirtækið fer eftir lögum og reglum í öllu og stendur sig vel.“

Gulli virtist hafa mikinn áhuga á starfi sínu og gaman að hlusta á hann. Þeir eru með miklu meira og sterkara erftirlit en ég bjóst við. Rosalega flott hjá þeim.“

-----

Hrafnhildur kennari og nemendur hennar vilja koma á framfær þakklæti til gestgjafanna í Norðurorku og Kjarnafæði fyrir frábærar móttöku.