Fara í efni

Kynntu sér flugmódel og flugmódelsmíði

Glímt við flugmódel í flugherminum.
Glímt við flugmódel í flugherminum.
Liður í námi nemenda á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA er að fara í vettvangsheimsóknir og kynnast ólíkum íþróttum og tómstundum. Þessar heimsóknir veita nemendum góða sýn á hversu fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf er og um leið kynnast nemendur íþróttum og tómstundum sem þeir hafa áður ekki kunnað skil á.
 
Í gær fóru nokkrir nemendur á íþrótta- og lýðheilsubraut með kennara sínum Hinrik Þórhallssyni í heimsókn í aðstöðu Flugmódelfélags Akureyrar á athafnasvæði Slippsins Akureyri og fengu kynningu á flugmódelum og Flugmódelfélagi Akureyrar og starfsemi þess. Svo skemmtilega vildi til að kynninguna önnuðust tveir kennarar í VMA, sem báðir eru miklir áhugamenn um flugmódel, Guðjón Ólafsson og Árni Hrólfur Helgason. Guðjón hefur verið áhugamaður um flugmódel hartnær fjörutíu ár en Árni Hrólfur hefur haft þetta áhugamál í um tvo áratugi. Þeir voru sammála um að þetta væri afar skemmtilegt og gefandi áhugamál og þó svo að flugmódelunum væri aðallega flogið á sumrin væri aldrei dauður tíma, því veturinn væri vel nýttur til þess að lagfæra vélar sem hefðu laskast eða bilað eða að smíða nýjar vélar.
 
Árni Hrólfur lét þess getið að áhugasvið manna innan flugmódelgeirans væri afar mismunandi. Sumir væru fyrst og fremst í þessu áhugamáli til þess að fljúga módelunum, sem er vissulega mikil kúnst. Aðrir hefðu meiri áhuga á handverkinu, að smíða módelin frá grunni og fljúga þeim síðan. Að smíða módel sögðu þeir að væri fyrst og fremst mikil nákvæmnisvinna og þá um leið mikil þolinmæðisvinna. En fyrst og fremst væri smíðin til þess fallin að róa sálina. 
 
Þegar fer að vora fær flugmódelfólk fiðringinn að komast út og fljúga sínum vélum. Á sumrin hittist það á Melgerðismelum í Eyjafjarðarsveit þar sem er prýðisgóð aðstaða til þess að fljúga flugmódelunum. Á hverju sumri er efnt til flugdags þar sem flugmódelfólk af öllu landinu kemur og ber saman bækur sínar - og keppir sín á milli. Einnig koma oft gestir erlendis frá. Í ýmsu er hægt að keppa í þessu sporti, t.d. í nákvæmni lendinga á fyrirfram ákveðnum punkti. 
 
Flugmódelfélag Akureyrar er ekki fjölmennt félag og sumir eru virkari en aðrir, eins og gengur. Árni Hrólfur og Guðjón segja að á milli 15 og 20 séu vel virkir í félaginu. Flugmódelfólk er að sjálfsögðu um allt land, í það heila nokkur hundruð manns.
 
Að lokinni kynningu á þessu skemmtilega áhugamáli buðu Árni Hrólfur og Guðjón nemendum að prófa að stýra flugmódeli í flughermi á tölvuskjá. Sem betur fór var þetta einungis flughermir því ítrekað brotlentu nemendur vélununum! Það kann að virðast auðvelt að stýra flugmódelum en það er hreint ekki raunin. En æfingin skapar meistarann í þessu eins og öðru. 
 
Hér er hlekkur á heimasíðu Flugmódelfélags Akureyrar og hér er fb-síða félagsins.