Fara í efni

Kynntu og sýndu loftþéttleikapróf nýbygginga

Ásgeir Valur Einarsson (t.v.) og Jósef Anton Skúlason við nýja frístundahús VMA sem þeir léttþéttlei…
Ásgeir Valur Einarsson (t.v.) og Jósef Anton Skúlason við nýja frístundahús VMA sem þeir léttþéttleikaprófuðu. Í hurðargatinu á milli þeirra er hluti búnaðarins sem þurfti til þess.

Ásgeir Valur Einarsson hjá Iðuni fræðslusetri og Jósef Anton Skúlason húsasmíðameistari og byggingastjóri hjá JÁVERK kynntu nemendum í byggingadeild VMA í gær hvernig staðið er að loftþéttleikaprófum á nýbyggðum húsum.

Í langan tíma hefur verið kveðið á um það í byggingarreglugerð að loftþéttleikaprófa ný hús en óhætt er að fullyrða að í bróðurparti nýbygginga sé það ekki gert. Þetta er og hefur hins vegar lengi verið gert í mörgum nágrannalanda okkar, til dæmis Danmörku þar sem þessi mæling er undantekningalaust gerð. En hér á landi hefur eftirlit með byggingum húsa brugðist hvað þetta varðar. Rakamyndunin er mikil hér á landi yfir vetrarmánuðina þegar hitastigið dansar í kringum núllið og því getur brugðið verulega út af ef ekki er nægilega vandað til verka og rakinn smýgur í gegnum títiprjónsstór göt.

Ásgeir Valur og Jósef loftþéttleikaprófuðu nýja frístundahúsið sem nemendur á öðru ári hafa verið að bygga í vetur. Með sérstökum tölvustýrðum búnaði er unnt að mæla þetta mjög nákvæmlega og hinar minnstu glufur eða göt í útveggjum, við glugga eða hurðargöt komast ekki framhjá búnaðinum, hvort sem er hitamyndavél eða reykvél.

Frístundahúsið er komið mjög langt, búið er að klæða útveggi og í loft og klæðning komin að stærstum hluta að utan. Ásgeir og Jósef segja best að mæla loftþéttleikann áður en húsin eru klædd til þess að geta brugðist við ef rakasperrurnar eru ekki að virka eins og þær eiga að gera.

Þessar loftþéttleikaprófanir eru um margt afar athyglisverðar og er ástæða til að þakka Ásgeiri og Jósef sérstaklega fyrir að koma og kynna þær fyrir nemendum og kennurum byggingadeildar VMA.