Fara í efni

Kynning fyrir grunnskólanema í VMA í dag

Frá grunnskólakynningunni 3. nóvember 2015.
Frá grunnskólakynningunni 3. nóvember 2015.

Í dag, þriðjudaginn 11. október, verður árlegur kynningardagur fyrir grunnskólanemendur í VMA. Gert er ráð fyrir að tæplega fjögur hundruð nemendur úr 10. bekk grunnskóla frá Akureyri og nærsveitum heimsæki skólann í dag. Hver nemendahópur verður í um tvær klukkustundir í skólanum og á þeim tíma verður grunnskólanemendunum kynnt námið í skólanum, félagslíf o.fl. Margt forvitnilegt ber fyrir augu enda er VMA stór skóli með fjölbreytt námsframboð.

Grunnskólakynning er orðin fastur liður í starfi VMA á haustönn og er liður í því að kynna skólann fyrir væntanlegum framhaldsskólanemendum. Stærstur hluti grunnskólanemanna kemur frá Akureyri en einnig er von á nemendum úr grunnskólum í Eyjafirði, Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu og sömuleiðis munu koma í heimsókn nemendur vestan Tröllaskaga.

Tekið verður á móti nemendahópunum á hálfrar klukkustundar fresti, fyrsti hópurinn kemur upp úr klukkan átta og síðan koma nemendahóparnir einn af öðrum framyfir hádegi. Í byrjun fá nemendur stutta kynningu á námsframboði skólans, síðan fara þeir í miðrými hans – M01 – þar sem allar námsbrautir setja upp kynningar og nemendur segja frá sínum brautum, svara spurningum grunnskólanema og verkefni verða til sýnis. Þá fá grunnskólanemendur kort af skólanum, þeir geta síðan gengið um hann og kynnt sér brautirnar. Að lokum safnast hver hópur saman í Gryfjunni þar sem félagslífið í skólanum verður kynnt af talsmönnum nemendafélagsins Þórdunu. Margt verður um að vera í skólanum á meðan á námskynningunum stendur, t.d. geta nemendur spreytt sig í suðuhermi á málmiðnaðarbraut, á rafiðnaðarbraut stendur þeim til boða að prófa að lóða og einnig verður opið inn í hina nýju Fab Lab stofu.