Fara í efni

Kynna sér sögu tækninýjunga

Frá vinstri: Birkir Elí, Kristófer Daníel og Dagur
Frá vinstri: Birkir Elí, Kristófer Daníel og Dagur

Morgunstund á bókasafninu. Nemendur í menningarsögu undir handleiðslu kennarans Þorsteins Kruger undirbúa fyrirlestra um merkar tækninýjungar í mannkynssögunni. Dalvíkingarnir Dagur Atlason og Birkir Elí Stefánsson vinna saman verkefni um þróun gerviútlima en Stöðfirðingurinn Kristófer Daníel Hafsteinsson safnar upplýsingum í fyrirlestur um upphaf ljósmyndunar. Allir eru þeir á félags- og hugvísindabraut VMA.

„Við erum að fjalla um þróun gerviútlima allt frá því  þegar Forn-Egyptar bjuggu til tær úr leðri og timbri og allt til nútíma gerviútlima sem Össur hefur þróað og framleitt. Það er virkilega áhugavert að kynnast þeirri miklu þróun sem hefur orðið á þessu sviði. Okkur langaði til þess að kynna okkur eitthvað öðruvísi og framandi og þetta reyndist mjög áhugavert,“ segja þeir Dagur og Birkir Elí.

Kristófer Daníel segist hins vegar hafa kynnt sér þróun ljósmynda og myndavéla frá því að fyrsta ljósmyndin varð að raunveruleika fyrir miðja nítjándu öld.

Þeir eru allir sammála um að auðvelt sé að nálgast heimildir um alla mögulega og ómögulega hluti. Einkum noti þeir netið í heimildaöflun, ekki síst í slíkar kynningar, en hins vegar sé oft ástæða til að fara varlega í að nota heimildir af netinu og því standi bókin alltaf fyrir sínu sem öruggari heimild við ritgerðaskrif.

Allir eru þeir þremenningar átján ára og fóru í framhaldsskóla beint úr grunnskóla. Birkir Elí og Kristófer Daníel fóru í VMA en Dagur tók fyrsta árið í MA en ákvað að breyta yfir í áfangakerfið því það hentaði honum betur, en auk þess að stunda nám í VMA er hann á fullu í tónlistinni, stundar nám í Tónræktinni og spilar á trommur í hinum ýmsu hljómsveitum.

Dagur og Kristófer Daníel leigja húsnæði á Akureyri en Birkir Elí ekur daglega á milli Akureyrar og Dalvíkur ásamt fjórum öðrum sveitungum sínum. Hann segist hafa leigt á heimavistinni eina önn á sinni skólagöngu á Akureyri en hafi síðan ákveðið að keyra á milli og það gangi ágætlega. Þessir fimm nemendur skiptist á að keyra á milli. Þannig megi halda kostnaðinum niðri. „Ég fer nú bara á svipuðum tíma á fætur úti á Dalvík og ef ég væri hér í bænum. Þetta er svo sem ekki langt og það venst ágætlega að fara hérna á milli. Við skiptum dögunum á milli okkar og þetta gengur bara mjög vel,“ segir Birkir Elí.