Fara í efni

Kvíði og þunglyndi í myndverki

Patryk Kotowski og Margrét Brá Jónsdóttir.
Patryk Kotowski og Margrét Brá Jónsdóttir.

Þau eru bæði á listnámsbraut VMA, koma af norðausturhorni landsins, búa á heimavistinni og eru kærustupar - Margrét Brá Jónsdóttir og Patryk Kotowski. Í sameiningu unnu þau afar áhugavert verkefni í félagsfræðiáfanga í vetur hjá kennurunum Hrafnhildi Sigurgeirsdóttur og Valgerði Dögg Jónsdóttur. Nemendur fengu lausan tauminn með á hvaða formi þau ynnu verkefni sín og var niðurstaða Margrétar og Patryks að vinna myndverk þar sem þemað er kvíði og þunglyndi.

Margrét Brá er frá Garði í Þistilfirði en Patryk frá Bakkafirði. Hún er á öðru ári á listnámsbraut en hann á þriðja ári. Og bróðir Patryks, Piotr Maciej Kotowski, er sömuleiðis á listnámsbraut, á öðru ári eins og Margrét og býr með bróður sínum á heimavistinni.

Margrét Brá segir það hafa legið beint við að vinna verkefnið í félagsfræðiáfanganum sem myndverk. „Við ákváðum að fjalla um hugsanir þeirra sem eru haldnir kvíða og þunglyndi. Við töluðum við stúlku sem hefur átt við þetta að stríða og Patryk, kærastinn minn, hefur líka glímt við þetta. Hann nýtti því sína eigin reynslu þegar við unnum verkið,“ segir Margrét og bætir við að Patryk gangi nú mun betur að takast á við kvíðann. Mikilvægt sé að veita þeim sem haldnir séu kvíða styrk og umhyggju og ræða opinskátt um hlutina. Í sameiningu hafi þeim gengið vel að takast á við þetta verkefni. „Þegar við unnum verkið fórum við í gegnum skissur sem Patryk gerði þegar hann var haldinn kvíða. Hann lýsti þessu sem svörtum skugga sem kæmi yfir hann og hugsanirnar væru í raun ekki hans, heldur einhvers skugga. Strákurinn í myndinni er einmitt ein af þeim skissum sem hann gerði þegar hann var í þessu ástandi og við nýttum einnig það sem stúlkan sem við töluðum við sagði okkur,“ sagði Margrét Brá.