Fara í efni

Kvennabylting í húsgagnasmíðinni!

Verðandi húsgagnasmiðir í TRÉ 109.
Verðandi húsgagnasmiðir í TRÉ 109.
Húsgagnasmíði virðist í auknum mæli höfða til nemenda byggingadeildar VMA. Af 26 nemendum á fyrsta ári í deildinni eru nú átta nemendur í húsgagnasmíði og þar af eru 7 konur. Það er til marks um gróskuna í húsgagnasmíði að á Akureyri hefur verið sett á stofn verkstæði sem að standa þrjár konur, ein þeirra er útskrifaður húsa- og húsgagnasmiður frá VMA og hinar tvær eru nemar í húsgagnasmíði í skólanum.

Þegar tíðindamaður heimasíðunnar leit inn í tíma í TRÉ 109 hjá 1. árs nemum í byggingadeild voru þar m.a. fjórar konur önnum kafnar við smíðarnar og allar eiga þær það sameiginlegt að vera á aldrinum 30-40 ára og leggja stund á húsgagnasmíði. „Þetta er kvennadeild,“ sögðu þær og brostu. Allar voru þær sammála um að námið væri afar skemmtilegt og gefandi.

Sandra Dögg Brynjarsdóttir, 31 árs Akureyringur, sagðist hafa á sínum tíma lokið við grunnskóla en síðan farið út á vinnumarkaðinn. En nú væri hún komin aftur á skólabekk og það væri gríðarlega skemmtilegt. „Þetta er mjög gaman. Stefnan er á húsgagna- og innréttingasmíði. Í framhaldinu hef ég áhuga á því að fara í hönnunarskóla, annað hvort í Danmörku eða Svíþjóð.“

Valgerður Arnardóttir er fertugur Mosfellingur. Hún sagðist hafa misst vinnuna árið 2009, drifið sig þá í Keili og lokið stúdentsprófi. Í framhaldinu hafi hún innritað sig í nútímafræði í Háskólanum á Akureyri. „Það nám höfðaði ekki til mín og því ákvað ég að söðla um og niðurstaðan var húsgagnasmíði í byggingadeildinni hér í VMA. Ég sé ekki eftir því, þetta er alveg ofboðslega gaman.“

Sara Hermannsdóttir er 39 ára gömul. Er Reykvíkingur en hefur búið með hléum á Akureyri síðan 2004. Sara er lærður hársnyrtir en ákvað að fara nýja braut í lífinu. „Ég var hér í tvö ár á listnámsbraut VMA og það var mjög skemmtilegt. Ég hef hins vegar lengi haft áhuga á húsgagnasmíði og því ákvað ég að láta drauminn rætast og innritaði mig í byggingadeildina. Þetta er  virkilega áhugavert og skemmtilegt. Of snemmt er að segja til um framhaldið en ég hef áhuga á innanhúshönnun eða arkitektúr.“

Guðlaug Erla Ágústsdóttir er 33ja ára Austfirðingur og hefur verið búsett á Akureyri með hléum síðan 1995. „Ég útskrifaðist sem tækniteiknari árið 2011, en fékk ekki vinnu við það fag. Fór síðan til Odense í Danmörku í byggingafræði.  Ég fann mig ekki í því námi og því var stefnan tekin aftur heim til Akureyrar og byggingadeild VMA varð niðurstaðan. Námið er mjög skemmtilegt og ég er alveg viss um að það mun nýtast mér vel. Ég er afar sátt við skólann og kennararnir hér eru alveg frábærir.“

Húsgagnasmíði var blómleg atvinnugrein á Akureyri hér á árum áður, en með innflutningi ódýrra húsgagna varð breyting á.  En miðað við aukinn áhuga á húsgagnasmíði virðist sem þessi iðnaður sé að komast á lappirnar á nýjan leik. Og til marks um þessa upprisu er verkstæðið Mublan, sem hefur verið sett á stofn á Akureyri, en að því standa þrjár konur, Berglind J. Jónasdóttir, útskrifaður húsgagnasmiður frá VMA og þær Guðrún Eyjólfsdóttir og Ingibjörg Björnsdóttir, nemar í húsgagnasmíði í VMA. Í Fréttablaðinu í gær birtist stutt viðtal við þær stöllur þar sem þær segja frá tilurð Mublunnar og starfsemi hennar.

Á meðfylgjandi mynd eru fjórar af sjö konum á fyrsta ári í húsgagnasmíði. Frá vinstri: Valgerður Arnardóttir, Guðrún Erla Ágústsdóttir, Sara Hermannsdóttir og Sandra Dögg Brynjarsdóttir.