Fara í efni

Krufning í lífeðlisfræði

Krufning í fullum gangi í lífeðlisfræðitíma.
Krufning í fullum gangi í lífeðlisfræðitíma.

Það var sannarlega gaman að fylgjast með nemendum í lífeðlisfræðiáfanga hjá Jóhannesi Árnasyni kryfja lungnastykki úr svínum. Nemendum var skipt í hópa og glímdi hver 3-4 manna hópur við að greina í sundur líffærin í lungnastykkinu og átta sig á því hvernig þetta allt saman virkar. Afar lærdómsríkt fyrir nemendur að skilja betur samhengi hlutanna í flóknu samspili líffæra.

Jóhannes segir að í mörg undanfarin ár hafi slíkar krufningar verið hluti af kennslu í VMA. Lungnastykkin fær skólinn til greiningar frá Norðlenska en þar er svínum slátrað í viku hverri.

Mörg og mismunandi líffæri blasa við við slíka krufningu; m.a. barki, hjarta, lungnaslagæð, vélinda, hjartalokur, holæð, berkjur, gollurhús, lungnabláæð, barkakýli, slagæðalokur, þind, ósæð, kransæðar, lungu og spenavöðvar.

Nemendur unnu krufninguna eftir kúnstarinnar reglum. Skáru fyrst hjartað frá og hlutuðu það síðan í sundur til þess að sjá leyndardóma þess. Með þessu móti er unnt að þekkja í sundur lokur, hvolf og gáttir og átta sig á hlutverki hjartans. Vinstri lungað er skorið frá og blásið í það með slöngu. Þá kemur í ljós hverskonar loftpoki lungað í raun er. Kom það mörgum nemendum nokkuð á óvart að sjá hversu mikið lungað þandist út við að blása inn í það. Lungað var síðan skorið í sundur og það skoðað í víðsjá til þess að unnt væri að sjá mögulegar lungnablöðrur eða berklinga/smáberkjur. Einnig var barkinn sérstaklega skoðaður og sömuleiðis barkakýlið og leitað að raddböndum með því að skera í það. Loks var þindin, sem skilur brjóstholið frá kviðarholi, skoðuð gaumgæfilega