Fara í efni

Krefjandi en skemmtilegt nám

Frá vinstri: Björgvin, Þorlákur og Ívar Dan.
Frá vinstri: Björgvin, Þorlákur og Ívar Dan.
Vélstjórnarnám er yfirgripsmikið og krefjandi. En það gefur sannarlega góða möguleika á vinnumarkaðnum og er jafnframt góð undirstaða fyrir háskólanám í til dæmis verkfræði. Um þetta eru sammála þeir Ívar Dan Arnarson, Björgvin Valdimarsson og Þorlákur Sigurðsson sem allir útskrifast af vélstjórnarbraut í vor. Ívar Dan er Stöðfirðingur en Björgvin og Þorlákur eru báðir frá Akureyri.

Vélstjórnarnám er yfirgripsmikið og krefjandi. En það gefur sannarlega góða möguleika á vinnumarkaðnum og er jafnframt góð undirstaða fyrir háskólanám í til dæmis verkfræði. Um þetta eru sammála þeir Ívar Dan Arnarson, Björgvin Valdimarsson og Þorlákur Sigurðsson sem allir útskrifast af vélstjórnarbraut í vor. Ívar Dan er Stöðfirðingur en Björgvin og Þorlákur eru báðir frá Akureyri.

„Þetta er mjög gott nám og afbragðs góðir kennarar,“ segir Ívar Dan og félagar hans taka undir hans orð. „Þetta er vissulega krefjandi nám en jafnframt skemmtilegt. Raungreinarnar eru ríkur þáttur í náminu, t.d. eðlisfræði og stærðfræði. Bóklegi hlutinn er stærri þáttur í náminu en margur hyggur,“ segja þeir.

Eins og gengur fara nemendur misjafnar leiðir að settu marki. Þeir þremenningarnir segja algengt að nemendur í vélstjórn taki jafnframt rafvirkjun, enda læri þeir í sínu námi töluvert í sambandi við rafmagn og þurfi því ekki að bæta svo ýkja miklu við sig í rafvirkjuninni til þess að klára það nám líka. Þorlákur er þegar búinn með rafvirkjunina og Ívar Dan og Björgvin ljúka henni á þessari önn. Þá er Ívar Dan nú þegar búinn með samning í vélvirkjun.

Að loknu námi í vélstjórn eru atvinnumöguleikarnir miklir – hvort sem er í landi eða úti á sjó. Ívar Dan segir ekki nokkurn vafa á því að þeir nemendur sem taki bæði vélstjórn og rafvirkjun standi sterkt að vígi á vinnumarkaðnum, þeir séu til dæmis eftirsóttir í vélstjórn um borð í fiskiskipum.