Fara í efni

Krakkar frá Höfn í heimsókn

Áttundubekkingar úr Grunnskóla Hornafjarðar í VMA.
Áttundubekkingar úr Grunnskóla Hornafjarðar í VMA.

Það er ekki á hverjum degi sem grunnskólanemar frá Höfn í Hornafirði heimsækja VMA en það gerðist þó í gær. Krakkar í áttunda bekk Grunnskóla Hornafjarðar og þrír kennarar þeirra komu í heimsókn í VMA og Svava Hrönn Magnúsdóttir námsráðgjafi fór með þá um skólann og sagði frá skólastarfinu. 

Hópurinn lagði af stað frá Höfn árla morguns síðastliðinn mánudag til Akureyrar og skellti sér á skíði seinnipartinn í Hlíðarfjalli. Að lokinni heimsókninni í gærmorgun í VMA var stefnan tekin á Hlíðarfjall á nýjan leik. Ef veðurguðirnir lofa er ætlunin að keyra aftur heim til Hafnar í dag.

Oft hafa krakkarnir á Hornafirði farið í skíðaferð á skíðasvæðið í Oddskarði en núna var sem sagt ákveðið að fara til Akureyrar og nýta brekkurnar í Hlíðarfjalli. Ánægjulegt var að taka á móti krökkunum í VMA og er þeim og kennurum þeirra þökkuð heimsóknin. 

Það er um langan veg að fara milli Hafnar og Akureyrar eða rétt um 500 kílómetrar. Til samanburðar er vegalengdin milli Akureyrar og Reykjavíkur um 390 km. Krökkunum úr Grunnskóla Hornafjarðar og kennurum þeirra er óskað góðrar heimferðar til Hafnar í dag.