Fara í efni

Kraftur í nemendum í málmsmíðinni

Það var nemendum kærkomið að koma aftur í skólann.
Það var nemendum kærkomið að koma aftur í skólann.

Fram til 19. maí verður stíft unnið í málmiðnaðardeildinni. Húsnæði deildarinnar hefur verið skipt upp í tvö rými og þegar var litið þangað inn í gær, á fyrsta degi sem verknámsnemendur gátu komið aftur í skólann eftir að samkomubannið var sett á 16. mars sl., voru átta útskriftarnemar í stál- og blikksmíði í öðru rýminu en tíu nemendur í vélvirkjun og vélstjórn voru í hinu rýminu í málmsmíðaáfanga. Kennslan hefur verið skipulögð á þann veg að unnt sé að virða allar reglur sóttvarnayfirvalda, þ.m.t. tveggja metra regluna, þess vegna takmarkast fjöldi nemenda við tíu í þessum rýmum. Hörður Óskarsson brautarstjóri málmiðnaðarbrautar segir að sett hafi verið upp þéttskipuð stundaskrá fyrir nemendur frá og með gærdeginum og til 19. maí – frá átta til fimm alla skóladaga – og sé þess vænst að nemendur nái að ljúka smíðaverkefnum sínum á þessum tíma. Hörður segir að brýnt hafi verið fyrir nemendum að slaka í engu á sóttvarnakröfum, þeir spritti sig vel og haldi tveggja metra fjarlægðarmörkum.

Hörður segir afar ánægjulegt að fá nemendur á nýjan leik í skólann og miðað við kraft þeirra og áhuga sé greinilegt að þeir hafi lengi beðið eftir því að snúa aftur í skólann.

Í gær voru í öðru rýminu átta nemendur í stál- og blikksmíði, sem útskrifast síðar í þessum mánuði, að keppast við að vinna í ýmsum smíðaverkefnum, þ.m.t. dráttarkerrum. Kristján Kristinsson kennari segir að til þess að fylgja settum reglum sé nemendum skipt upp í nokkra hópa. Til dæmis sé unnið að smíði á tveimur kerrum og sé hluti nemenda í henni á meðan aðrir vinni í rafsuðu í suðubásunum. Með góðu skipulagi sé auðvelt að fylgja settum sóttvarnareglum.

Í hinu rýminu voru nemendur í vélstjórn og vélvirkjun að smíða litlar loftvélar. Nemendur eru komnir misjafnlega langt með verkefni sín en gefst nú kostur á að ljúka þeim. Grunndeildarnemum gefst einnig kostur á að koma í verklega tíma síðar í vikunni og vinna í sínum smíðaverkefnum.

Hörður brautarstjóri segist hafa óskað eftir því við nemendur að þeir mæti vel undirbúnir í þessa verklegu tíma, til þess að nýta tímann eins vel og mögulegt sé, með því m.a. að hafa kynnt sér rækilega teikningar af þeim hlutum sem þeir séu að smíða og gera vel útfærða verkáætlun.