Fara í efni

Kosning tveggja stjórnarmanna í Þórdunu

Á næstu dögum verða kjörnir tveir nýir fulltrúar í stjórn Þórdunu, annars vegar eignastjóri og hins vegar kynningarstjóri og verður kosið á Innu. Steinar Bragi Laxdal, formaður nemendafélagsins Þórduna, segir að fyrirkomulag kosninganna verði fljótlega kynnt á samfélagsmiðlum.

Sveinn Sveinbjörnsson og Sandra Hafsteinsdóttir, sem voru eigna- og kynningarstjórar í stjórn Þórdunu, létu af stjórnarstörfum í lok haustannar og því þarf að kjósa nýja fulltrúa í þeirra stað. Auglýst var eftir framboðum og eru eftirtalin í framboði:

Eignastjóri:
Sigurður Einar Þorkelsson
Óskar Óðinn Sigtryggsson

Kynningarstjóri:
Hlynur Fannar Stefánsson
Atli Gunnar Eiríksson
Margrét Rún Stefánsdóttir

Það verður í mörg horn að líta í félagslífinu á næstu vikum. Á fimmtudag í næstu viku verður efnt til spurningakeppni í löngu frímínútunum þar sem kennarar mæta nemendum. Síðan rekur hvern viðburðurinn annan. Þann 3. febrúar verður frumsýning á farsanum Bót og betrun í uppfærslu Leikfélags VMA og fleiri sýningar fylgja auðvitað í kjölfarið. Af öðrum viðburðum í febrúar vill Steinar Bragi formaður Þórdunu nefna metakvöld þar sem nemendur í VMA takast á í hinum ýmsu þrautum, Leiser Tag viðburður verður en ekki er búið að ákveða stað og stund og síðan segir Steinar Bragi að verði kvölddagskrá sem verður helguð erlendum nemendum skólans – en að sjálfsögðu verður viðburðurinn öllum opinn. Þá vill formaðurinn geta þess að í febrúar er stefnt að því að VMA-peysurnar verði aftur til sölu en sala þeirra gekk glimrandi vel á haustönninni.

Stóri viðburður marsmánaðar verður svo vitaskuld árshátíð Þórdunu, sem verður haldin í Sjallanum föstudagskvöldið 10. mars. Nú er unnið á fullu við undirbúning hennar og er hún smám saman að taka á sig mynd. Steinar Bragi orðar það svo að í engu verði til sparað enda verður þetta 30 ára afmælishátíð Þórdunu.