Fara í efni

Konur í íslenskri myndlist

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.
Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

Á morgun, þriðjudaginn 8. desember, kl. 17 heldur Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi Listasafnsins á Akureyri og myndlistarkona, fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Konur í íslenskri myndlist.

Guðrún Pálína fjallar í máli og myndum um konur í íslenskri myndlist, þekkt verk verða skoðuð og sett í sögulegt samhengi. Einnig verður fjallað um bók Hrafnhildar Schram, Huldukonur í íslenskri myndlist, sýningu Listasafns Íslands, Íslands konur stíga fram, sem og valdar myndlistarkonur sem fæddar eru á árunum 1940-1990. 

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir nam myndlist og málvísindi í Gautaborg og hélt svo til frekara náms í Hollandi, fyrst í AKI Akademie voor Beeldende Kunst en Industrie í Enschede og síðar í framhaldsnám í Jan van Eyck Akademie í Maastricht og útskrifaðist þaðan 1989. Guðrún Pálína hefur verið búsett á Akureyri síðan 1991, unnið þar að eigin myndlist, staðið fyrir sýningarhaldi og viðburðum og fengist við kennslu. Hún er í hálfri stöðu fræðslufulltrúa við Listasafnið á Akureyri.

Fyrirlesturinn er tíundi í röð þriðjudagsfyrirlestra í vetur og jafnframt sá síðasti á þessu ári. Áfram verður haldið á nýju ári, fyrsti þriðjudagsfyrirlestur ársins verður 19. janúar.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.

Aðgangur á fyrirlesturinn á morgun er ókeypis og eru allir velkomnir.