Fara í efni

Kompakt í Listasafninu

Minningar okkar - bókverk Jónínu Freyju Jónsdóttur
Minningar okkar - bókverk Jónínu Freyju Jónsdóttur

Í lok hverrar annar er efnt til sýningar á lokaverkefnum nemenda á listnáms- og hönnunarbraut listnámsbrautar VMA og er sýningin í Ketilhúsinu – sem er hluti sýningarrýmis Listasafnsins á Akureyri.

Á morgun, laugardaginn 8. maí, kl. 12-17 verður opnuð í Ketilhúsinu sýning á lokaverkefnum átján nemenda listnáms- og hönnunarbrautar VMA, fimmtán þeirra eru á myndlistarlínu og þrír á textíllínu. Yfirskrift sýningarinnar er Kompakt.

Þegar litið var inn í Ketilhúsið í gær var verið að setja verkin upp. Þau eru afar fjölbreytt, eins og áður. Hér eru myndir af nokkrum verkanna.

Eftirtaldir nemendur sýna – hér birtist lýsing þeirra í sýningarskrá á verkum sínum:

Anamaria-Lorena Hagiu, myndlistarlína
Antithesis – dagblöð, plastfilma, límband, gegnsær pappír og akrýll
Í gegnum skúlptúrinn minn vildi ég láta í ljós tilfinninguna um áhyggjur, sorg, kvíða og ofhugsun og hvaða áhrif þessar tilfinningar hafa á huga og líkama. Ég trúi því að þetta séu tilfinningar sem allir geta tengst vegna þess að allir hafa fundið fyrir þessum tilfinningum að minnsta kosti einu sinni í lífi þeirra. Jafnvel þó að þessar tilfinningar séu neikvæðar geta þær líka verið fallegar, vegna þess að þær eru hluti af því sem gerir okkur að mönnum.

Ásgerður Erla Einarsdóttir Strand, myndlistarlína
Lítið leyndarmál – tölva og kistill

Animatic sem spilar í lokuðum kistli. Eitthvað sem maður vill ekki sýna og læsir í burtu.

Ásta Þórunn Elvarsdóttir, myndlistarlína
Ísland – olía á striga 100x120 cm

Fantasíuheimur þar sem ís er í aðalhlutverki. Verkið á að gefa frá sér jákvæðni, hamingju og gleði.

Dagný Dís Bessadóttir, myndlistarlína
Manía – akrýll og úrklippur á tréplötu
Það var engin ákveðin stefna í þessu verki nema að gera það sem mér finnst vera skemmtilegt, því lífsmarkmið mitt er að hafa gaman.

Emilía Fönn Hafsteinsdóttir, myndlistarlína
Áður en við hittum fjölskylduna – stafrænar myndir

Sena í hlutverkaleik með vinum mínum. Karakterar eftir „rothound“ og „zeratboi“ á Instagram.

Erla Dís Reykjalín Ólafsdóttir, myndlistarlína
Beta – blöð og stafrænar myndir
Að sjá þróunina sem gengur á bak við tjöldin hjá tölvuleikja- og kvikmyndahönnuðum er pínu áhugavert.

Inga Sigurrós Þórisdóttir, myndlistarlína
Gan Bo Jie – akrýll á striga 80x80 cm

Ég hef alltaf verið áhugasöm um vatn og því sem tengist vatni. Ég ákvað að vinna með vatn því það tengist okkur mannverunum á svo marga vegu. Einnig þýðir kínverska nafnið mitt, titill myndarinnar, hrein, tær vatnsbylgja.

Ísak Lindi Aðalgeirsson, myndlistarlína
Urður, Verðandi og Skuld – akrýll á striga
Allir mega finna sína eigin merkingu og tengingu í verkunum sínum. Ég vil ekki að mín merking hafi áhrif á hvað aðrir sjá og finna í verkunum.

Ívar Bjarki Malmquist Hoblyn, textíllína
Húð – blek og ég

Mig langaði að breyta til. Í staðinn fyrir að gera flík langaði mig að tattooa sjálfan mig og gerði það. Verkið er svona „minimal line art“.

Jónína Freyja Jónsdóttir, myndlistarlína
Minningin okkar - bók

Í þessari bók eru saman safnaðar sögur af mér og fósturbróður mínum sem lést fyrir eigin hendi í maí 2020. Meiningin með þessari bók er að gefa sögunum af honum meira líf með skrifuðum orðum og skemmtilegri myndskreytingu og leyfa ykkur að sjá það hvernig ég þekkti hann og hvernig ég mun muna eftir honum.

Katrín Helga Ómarsdóttir, myndlistarlína
Þögn – filmuljósmyndir
Ég hef rosalega gaman að filmuljósmyndum og vildi gera eitthvað með það efni. Þar sem ég er með kvíðaröskun finn ég ákveðinn frið í þögninni og þá sérstaklega í sveitinni. Þema myndanna er því þögnin og friðurinn sem henni fylgir.

Katarzyna Rymon-Lipinska, textíllína
Konwalje – polyester, chiffon og tjull

Konwalje eru litlar hvítar liljur sem vaxa í skóginum hennar ömmu út í Póllandi og vann ég flíkina mína mjög mikið úr minningum mínum þaðan. Konwalje eru friðuð blóm í Póllandi og tengi ég þau við friðinn og ástina sem ég finn fyrir þegar ég fer þangað í heimsókn. Náttúran þar er svo falleg og ólýsandi og litirnir sem breytast á hverjum degi, þetta langaði mig að endurspegla með jakkanum og efninu sem ég hannaði. Amma er kaþólsk og þaðan kom hugmyndin að blæjunni sem toppar allt saman með ákveðnum hreinleika.

Katarzyna Walankiewicz, textíllína
Euphoria – bómull, tjull, mesh og dye-na-flow
Hluti af því sem gerir fötin svo áhugaverð er að þau eru gerð úr margskonar eftir og gerð með svo mörgum mismunandi aðferðum. Hver fatnaður er einstakur. Með þessum kjól vil ég sýna ástríðu sem ég hef fyrir tísku.

Margrét Lilja Álfgeirsdóttir, myndlistarlína
Ferskjur – innsetning

Tilgangur með baðherbergi, eins og við þekkjum það í daglegri notkun, er til ytri og innri hreinsunar. Það sem mig langar til að gera með mínu verki er að ganga lengra með hlutverk baðherbergisins til innri hreinsunar. Baðherbergi er svo mikið meira en aðeins baðkar, handlaug og klósett. Á baðherberginu eiga allir að geta leitað eftir friði, hvíld, andlegri hreinsun og Guði. Guð er með okkur hvar sem er og hvenær sem er. Hann er með okkur öllum stundum, einnig á baðherberginu. Í mínum huga er sterk tenging milli andlegrar hreinsunar og Guðs. Með verkinu vil ég skapa gott rými til andlegrar hreinsunar og slökunar og valdi því ferskjur sem eru m.a. táknmynd hreinleika og litapallettan í verkinu er fengin þaðan.

Sandra Dögg Kristjánsdóttir, myndlistarlína
Í blóma lífsins – akrýll
Í þessari seríu ákvað ég að gera tilraunir með blöndun dýra og plantna. Blöndur eru eftirfarandi: býfluga og orkedía, ljón og sólblóm, kolkrabbi og túlípani, skjaldblaka og „bleeding heart“.

Sara Berglind Stefánsdóttir, myndlistarlína
Líttu inn – timbur og mismunandi hlutir

Tilfinningar eru stórar, miklar, litlar og ósýnilegar. Þú finnur fyrir mörgum tilfinningum en þú veltir ekki fyrir þér hvernig þær geta litið út. Í verkinu mínu vinn ég með það sem ég sé fyrir mér þegar ég finn fyrir tilfinningunum sem ég vann með í verkinu mínu.

Sigrún Nattída Guðmundsdóttir, myndlistarlína
Öll sagan? – akrýll, digital, trélitir, límmiðar, foam, pappír

Verkið sýnir herbergi stelpu sem virðist vera fyrir allt bleikt og sætt en ef maður skoðar það nánar eru grimmar vísbendingar að það sé ekki þannig.

Veronika Adamonis, myndlistarlína
Characters – 120x90 cm blað, svartir pennar og blýantar

Ég er heltekin af persónugerð og ég heillast aðallega af persónum úr anime. Auk þess veitir það mér ánægju að búa til mínar eigin persónur. Ég forðast liti og einbeiti mér aðallega að línuvinnunni vega þess að mér finnst skemmtilegra að hafa það í „Manga“-stíl. Auk þess þarf list ekki endilega að vera litrík til að hún sé gópð og tilfinningamikil. Þannig sé ég það.