Fara í efni

Tveir VMA-nemar í afrekshópi Keilusambandsins

Guðbjörg Harpa og Ólafur Þór.
Guðbjörg Harpa og Ólafur Þór.

Nýverið voru tveir nemendur VMA, þau Ólafur Þór Ólafsson Hjaltalín og Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir, valin í afrekshóp Keilusambands Íslands og er þetta annað árið í röð sem þau eru bæði valin í þennan hóp. Ólafur Þór, sem er nemandi á fyrsta ári í byggingadeild VMA, og Guðbjörg Harpa, sem er nýnemi á brautabrú VMA, æfa og keppa fyrir keiludeild Íþróttafélagsins Þórs.

Það er ekki langt síðan byrjað var að æfa keilu á Akureyri, eðlilega var það ekki hægt fyrr en keiluhöll var risin í bænum. Fyrst og fremst er keila almenningsíþrótt sem hentar öllum en með stofnun keiludeildar hefur hópur keilara stundað reglulegar æfingar í íþróttinni. Ólafur Þór Ólafsson Hjaltalín og Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir eru í hópi keiluiðkenda á Akureyri og hafa þau bæði náð frábærum árangri í íþróttinni á stuttum tíma. Þetta byrjaði allt saman fyrir þremur árum, árið 2013. Þá sáu Ólafur og Guðbjörg Harpa, sem bæði voru í Oddeyrarskóla, auglýsingu í Dagskránni um kynningu á keilu. Átta bekkjarfélagar mættu til þess að kynna sér málið og þremur árum síðar eru fjórir af þessum átta bekkjarfélögum úr Oddeyrarskólla sem æfa íþróttina reglulega.

Guðbjörg Harpa var fyrsti Akureyringurinn til þess að vera valin í landslið í keilu. Hún spilaði fyrir Íslands hönd á Evrópumóti ungmenna í Egilshöll í Reykjavík sl. vetur, en um 140 keilarar frá 26 þjóðlöndum tóku þátt í mótinu. Hún er bæði Akureyrarmeistari og bikarmeistari á Akureyri í sínum flokki. Því miður eru ekki fleiri stúlkur á aldri Guðbjargar Hörpu að æfa keilu á Akureyri en hún lætur engan bilbug á sér finna og heldur áfram af fullum krafti. Hæfileikarnir leyna sér ekki og hún er afar iðin við æfingar sem hefur heldur betur skilað sér í frábærum árangri.

Ólafi Þór hefur farið mikið fram á síðustu mánuðum, sem nú hefur skilað sér í því að hann hefur verið valinn í afrekshóp Keilusambandsins. Það þýðir að auk reglubundinna æfinga eru sérstakar æfingar fyrir afrekshópinn undir handleiðslu unglingalandsliðsþjálfarans Guðmundar Sigurðssonar, sem býr á Akranesi. Aðstaða til æfinga og keppni í keilu er einungis í Reykjavík, Akureyri og Akranesi. Markmiðið með afrekshóp Keilusambandsins er að hlúa vel að börnum og unglingum sem þykja skara fram úr og að innan tíu ára hafi Ísland eignast áhuga- og/eða atvinnukeilara í fremstu röð. Ólafur Þór segir að sitt markmið í íþróttinni sé alveg skýrt, hann stefni á að verða í fremstu röð.

Þrátt fyrir ungan aldur og að hafa ekki stundað íþróttina nema í um þrjú ár hefur hann nú þegar náð hæsta stigaskori sem hefur náðst á Akureyri. Það gerðist á æfingu sl. vor þegar hann náði 299 stigum af 300 mögulegum. Til þess að ná 300 stigum í einum leik þarf tólf fellur – þ.e. að fella allar keilurnar í einu skoti – en Ólafur Þór náði ellefu fellum og aðeins ein keila var uppistandandi.

Þar sem keiludeild Þórs er ung að árum eru liðsmenn hennar ennþá í neðri deildum í Íslandsmótinu í keilu. Ólafur Þór er einn þriggja liðsmanna í liði Þórs í Íslandsmótinu – allir þrír eru þeir úr gamla bekkjarkjarnanum í Oddeyrarskóla og allir eru þeir nemendur í VMA. Þeir þremenningar eru í liði sem keppir í þriðju deild Íslandsmótsins en Ólafur segir að sjálfsögðu takmarkið að komast upp um deild í ár. Hvort það takist, verði tíminn að leiða í ljós. Hér er mynd af þeim þremenningum en með Ólafi í liðinu er Birkir Örn Erlingsson (lengst til vinstri á myndinni) og Rúnar Ingi Grétarsson. Báðir eru þeir Birkir Örn og Rúnar Ingi á fyrsta ári í grunndeild rafiðnaðar í VMA.

En hver telur Ólafur Þór að sé meginástæðan fyrir velgengni hans í keilunni? Þær eru margar, segir hann. Hann hafi mikla ánægju af því að stunda íþróttina og leggi rækt við hana. En stærsta skýringin sé þó trúlega sú, segir Ólafur Þór, að hann hafi þróað afar sérstakan skotstíl, sem fáir hafi tileinkað sér. Hann sé sá eini á Akureyri sem skjóti á þennan hátt en nokkrir aðrir syðra geri það líka. Án þess að fara út í flóknar útskýringar á skottækninni er munurinn á skotum Ólafs Þórs og annarra sú að hann notar ekki þumalinn þegar hann skýtur kúlunni eftir brautinni. Þess í stað má segja að hann fari með lófann undir kúluna og kasti henni þannig. Með þessu móti segist hann ná mun meiri snúningi á kúluna en ella. „Eiginlega getur enginn þjálfað mig hér á Akureyri í þessu því ég er sá eini hér sem skýt svona. Ég ligg yfir myndböndum og læri af þeim, það má segja að Youtube sé minn þjálfari,“ segir hann og brosir.

Sem fyrr segir hóf Ólafur Þór nám í byggingadeild VMA sl. haust. Hann segir enga sérstaka ástæðu fyrir því að hann valdi að fara í smíðarnar, „en mig langaði fyrst og fremst í eitthvert verklegt nám.“ Og hann sér ekki eftir því, honum líkar afar vel í byggingadeildinni og á fastlega von á því að hann sé kominn þar á rétta hillu.