Fara í efni

Kominn hringinn

Ásgeir Bragason fer yfir málin með nemendum sínum.
Ásgeir Bragason fer yfir málin með nemendum sínum.

„Eiginlega má segja að ég sé kominn hringinn,“ segir Ásgeir V. Bragason, kennari í bifvélavirkjun en frá og með þessu skólaári er hann í fullri stöðu við VMA við kennslu verðandi bifvélavirkja.

Það er ekki ofsögum sagt að nánast er hægt að fletta upp í Ásgeiri þegar bílar eru annars vegar. Frá blautu barnsbeini hefur hann unnið við bíla, viðgerðir frá a til ö, bílamálningu og réttingar. Hann hóf að læra bifvélavirkjun sextán ára gamall árið 1976. Þetta var fyrir daga VMA og námið var í Iðnskólanum á Akureyri. Ásgeir starfaði lengi með föður sínum, Braga Ásgeirssyni, sem rak eigið verkstæði, og hann tók síðan við keflinu og rak bílaverkstæði til fjölda ára en hefur undanfarin fjögur ár starfað við bifreiðaskoðun hjá Frumherja á Akureyri. En nú er Ásgeir sem sagt kominn á nýjan starfsvettvang, að miðla reynslu sinni og þekkingu til nemenda.

Fjórtán hófu nám í bifvélavirkjun í VMA núna á haustönn. Námið er blanda bók- og verknáms en til þess að geta innritast í það þurfa nemendur að hafa lokið tveggja anna grunnnámi vél- og málmtæknigreina. Faggreinanámið í bifvélavirkjun er fjórar annir í skóla og einnig þurfa nemendur að hafa lokið tólf mánaða starfsþjálfun á vinnustað áður en farið er í sveinspróf.

Ásgeir er ekki alveg ókunnugur því að kenna því hann var um tíma í stundakennslu áður en bifvélavirkjunin fluttist í húsnæði VMA á Eyrarlandsholti og einnig kenndi hann á vorönn 2023. En núna er Ásgeir sem sagt kominn í fullt starf í kennslunni sem hann segir í senn bæði ögrandi og skemmtilegt. Hann sótti sér kennsluréttindi fyrir röskum áratug í fjarnámi við Háskólann í Reykjavík.

Ekki þarf að hafa um það mörg orð að þó svo að mörg grunnatriði í bifvélavirkjuninni séu þau sömu í dag og á þeim tíma er Ásgeir var sjálfur að læra á áttunda áratug síðustu aldar hefur vitaskuld fjölmargt breyst. Stóra byltingin er tölvu- og rafmagnsbílavæðingin. Vitaskuld þarf námið að taka mið af öllum þessum nýjungum og breytingum og segir Ásgeir að til þess þurfi að leggja í mikla vinnu við gerð námsefnis. Stóra verkefnið sé að safna öllum þessum upplýsingum saman og miðla þeim til nemenda til þess að búa þá vel undir að vinna í þessum geira í framtíðinni. Ásgeir segist í gegnum tíðina hafa fylgst vel með þeim breytingum og tækninýjungum sem hafi átt sér stað í bílaiðnaðinum og þær upplýsingar komi að góðum notum núna.

Þegar litið var inn í verklega kennslustund hjá Ásgeir og nemendum hans í bifvélavirkjun var verkefni dagsins að rífa í sundur mótora og greina þá, hvernig sé unnt að gera við þá og hvað þurfi til.