Fara í efni

Kom aldrei neitt annað til greina en listnám

Harpa Mjöll Hafþórsdóttir.
Harpa Mjöll Hafþórsdóttir.

„Ég vissi strax snemma í grunnskóla að ég ætlaði á listnámsbraut hér í VMA – og ég skoðaði ekki einu sinni aðra möguleika. Ég hafði strax sem krakki mikla ánægju af því að teikna og þetta var það sem mig langaði til að læra. Ég byrjaði á textílsviði en færði mig síðan yfir á myndlistarsviðið,“ segir Harpa Mjöll Hafþórsdóttir.

„Ég byrjaði hér haustið 2017. Ég hef tekið pásur í samtals hálft annað ár en mér sýnist að eftir þetta skólaári eigi ég tvær annir eftir. Ég eignaðist dóttur sem er núna eins árs gömul og þess vegna þurfti ég að ýta skólanum til hliðar á meðan. Þangað til hún fer á leikskóla, sem verður næsta sumar, get ég ekki verið í fullu námi en ég hef meiri tíma fyrir námið næsta vetur,“ segir Harpa.

Hún segist koma sjálfri sér á óvart á hverjum degi í náminu. Hún hlakki til þess að koma í skólann og takast á við eitthvað nýtt, það sé í senn gefandi og ögrandi. „Það er auðvitað heilmikið skipulag að vera í skóla og með lítið barn. Þetta er hægt en vissulega ekki alltaf auðvelt. Það er gott að eiga góða fjölskyldu sem leggur mér lið og stundum tek ég dóttur mína með mér í skólann. Hún lætur sér það vel líka og samnemendur mínir og kennarar gera ekki athugasemdir við það.“

Þessa dagana má sjá verk eftir Hörpu á vegg gegnt austurinngangi skólans. Það gerði hún í akrílmálunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn 2021. Harpa segir að hún hafi við gerð myndanna verið undir áhrifum frá ævintýrum, sem hún hafi drukkið í sig þegar hún var yngri. Eitt af hennar uppáhalds ævintýrum er Lísa í Undralandi, sem Leikfélag VMA frumsýndi 5. mars sl. í Gryfjunni.

En hvað tekur við að VMA loknum? Harpa segist ekki vera farin að horfa svo langt en hún segist vel geta hugsað sér að prófa eitthvað alveg nýtt, t.d. að búa erlendis og í því sambandi horfir hún til Svíþjóðar. Hún segist ekki hafa mótaðar hugmyndir um frekara nám á þessu stigi en leirlistin sé áhugaverður kostur.

Talið berst að talnablindu, sem margir glíma við án þess jafnvel að vita að því. Harpa segir að hún hafi verið greind talnablind í grunnskóla, sem kom henni ekki á óvart eftir að hafa átt í óendanlega miklu brasi með stærðfræðina. „Áður en ég var greind talnablind var ég farin að upplifa mig heimska, enda gat ég með engu móti lært stærðfræði. Ég stóð hins vegar samnemendum mínum jafnfætis eða var á undan þeim í öðrum námsgreinum. Þegar ég kom í VMA var niðurstaðan sú að ég fengi að sleppa stærðfræðinni en þess í stað tek ég sálfræði. Talnablindan getur verið töluverð hindrun í daglegu lífi, t.d. get ég ekki lesið á venjulega veggklukku og allar tölur á tölvuskjá geta valdið mér kvíðakasti,“ segir Harpa og getur þess að talnablindan geti jafnvel verið sér hindrun þegar hún vinni með þrívídd.