Fara í efni

Kjötiðnaðarmaður og matartæknir í kokkanámi

Helgi Gunnlaugsson.
Helgi Gunnlaugsson.

Nemendur í öðrum bekk í matreiðslu glíma við fjölbreytt og skemmtileg verkefni í námi sínu, eins og sagt var frá hér á heimasíðunni í gær. Saltkjöt og hjónabandssæla á nýstárlegan hátt var verkefni vikunnar. Einn af nemendunum í 2. bekk kokkanámsins, Helgi Gunnlaugsson, á að baki fjölbreytt nám og starfsreynslu. Hann er 39 ára gamall og starfar nú hjá Matsmiðjunni á Akureyri sem m.a. hefur á sínum snærum Kaffi Torg á Glerártorgi, selur heitan mat í Hrísalundi (við hlið Nettó-verslunar), sér um mötuneyti í VMA og nokkur önnur mötuneyti á Akureyri.

Helgi er menntaður kjötiðnaðarmaður og starfaði sem slíkur í nokkur ár - fyrst hjá Fjallalambi á Kópaskeri en síðan hjá Norðlenska. Að þeim tíma loknum færði Helgi sig yfir í eldamennskuna og sá í nokkur ár um heita matinn í verslun Samkaupa í Hrísalundi. Til þess að styrkja sig frekar á þessu sviði tók hann matartækninám í lotunámi í VMA og lauk því fyrir sex árum. Og aftur er hann kominn í VMA, nú í annan bekk í matreiðslunámi. Helgi segir að í ljósi þess að hann hafi bæði í kjötiðnaðar- og matartæknináminu lokið ákveðnum bóklegum grunni sem nýtist honum í matreiðslumannsnáminu sé hann fyrst og fremst í verklegu námi núna. "Það var einboðið að nýta sér þann möguleika að taka 2. bekkinn þegar hann var í boði hér. Ég hef unnið lengi í þessu fagi og því fannst mér rökrétt að fara í námið og afla mér réttinda sem matreiðslumaður," segir Helgi Gunnlaugsson.