Fara í efni

Kitluðu bragðlaukana í ríkum mæli

Aðalrétturinn - lambakóróna og meðlæti
Aðalrétturinn - lambakóróna og meðlæti

Mikilvægur þáttur í námi matreiðslunema í 3. bekk og framreiðslunema í 2. bekk eru alvöru verklegar æfingar, eins og um væri að ræða eldamennsku og framreiðslu á veitingahúsum. Matreiðslu- og framreiðslunemar lögðu saman krafta sína í kvöld og niðurstaðan var dásemdar fimm rétta kvöldverður í Þrúðvangi, sal matvæla- og ferðamálabrautar VMA, sem kitlaði heldur betur bragðlauka boðsgesta.

Allir matreiðslunemarnir lögðu saman krafta sína í kvöldverðinn og hluti nemanna sem nú eru í 2. bekk í framreiðslu. Vel var að verki staðið á allan hátt og útkoman var hreint frábær.

Matseðil kvöldsins útfærðu matreiðslunemarnir í sameiningu. Hann var eftirfarandi:

Réttur 1
Kjúklingalifra parfait með freyðivínssósu, fennelskál og sýrðu vatnsmelónusalsa.

Réttur 2
Hægeldaður þorskur mosaic, beurre monte, laukkex, silungahrogn og sýrð epli.

Réttur 3
Sætkartöfluravioli með salvíurjóma.

Réttur 4
Lambakóróna með brenndu jarðskokkamauki, parmesan, grænmeti, sýrðum sykurbaunum, bok choy, demi glaze og sveppakexi.

Réttur 5
Karamellusúkkulaðihálfkúla – karamellusúkkulaðimús, hindberja confit, hnetusmjörkex, hnetusmjör chantilly, súkkulaðiperlur og passionfruit sorbet.