Fara í efni

Kenny Nguyen með síðasta þriðjudagsfyrirlestur vetrarins

Kenny Nguyen.
Kenny Nguyen.

Í dag, þriðjudaginn 10. mars, kl. 17-17.40 heldur bandaríski myndlistarmaðurinn Kenny Nguyen fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Silk – A Metaphor for Identity. Í fyrirlestrinum, sem fer fram á ensku, útskýrir Nguyen hugmyndir sínar um menningarlega sjálfsmynd, samþættingu og uppflosnun og hvernig hann notar viðkvæmt og fíngert silki í listsköpun sinni. 

Kenny Nguyen vinnur mest með blandaða tækni. Í verkum sínum kannar hann sjálfsmynd, samþættingu og menningarlega uppflosnun.

Hann er fæddur og uppalinn í Suður Víetnam og lærði fatahönnun við arkitektaháskóla í Ho Chi Minh borg og málaralist við háskóla Norður-Karólínu ríkis í Charlotte. Verk hans hafa verið sýnd víða um heim, t.d. í Frakklandi, Suður-Kóreu, Víetnam og Bandaríkjunum. 

Fyrirlestur Kenny Nguyen er síðasti þriðjudagsfyrirlestur vetrarins en þessi fyrirlestraröð er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.